230 þúsund ný tilfelli í Bandaríkjunum

Skimun fyrir Covid-19 í borginni Chicago.
Skimun fyrir Covid-19 í borginni Chicago. AFP

Þriðja daginn í röð var slegið met í Bandaríkjunum varðandi fjölda kórónuveirutilfella á einum sólarhring.

Samkvæmt tölum John Hopkins-háskóla greindust tæplega 230 þúsund ný smit í landinu í gær og 2.527 létu lífið af völdum Covid-19.

Síðustu tvær vikur hafa reglulega látist yfir tvö þúsund manns af völdum veirunnar á degi hverjum, rétt eins og gerðist í fyrstu bylgju hennar í vor.

Yfirmenn heilbrigðismála í Bandaríkjunum vöruðu við auknum fjölda tilfella eftir að milljónir Bandaríkjamanna lögðu land undir fót til að að fagna þakkargjörðarhátíðinni, þrátt fyrir tilmæli um að halda sig heima við.

Alls hafa rúmlega 1,5 milljónir manna látið lífið í heiminum af völdum kórónuveirunnar og 66 milljónir hafa smitast síðan hún greindist fyrst í Kína á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka