Boðar hertar aðgerðir í Danmörku

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til blaðamannafundar í fyrramálið þar sem kynntar verða tillögur að hertum aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Frá þessu greindi hún í jólalegu ávarpi á facebooksíðu sinni í kvöld.

„Ef við hittum færra fólk nú verður öruggara að hitta nána ættingja þegar jólin ganga í garð,“ sagði Frederiksen áður en hún boðaði „staðbundnar og árangursmiðaðar lokanir“ sem gilda munu í þeim landshlutum þar sem smit er mest. Tiltók hún Kaupmannahöfn, Óðinsvé og Árósa auk annarra þéttbýlisstaða á Sjálandi. 

Smitum hefur fjölgað á stór-Kaupmannahafnarsvæðinu undanfarnar vikur og var svæðið í fyrradag fært úr hættustigi þrjú í hættustig fjögur. Í því felst að aukið álag er á sjúkrahúsum á svæðinu.

Talið er líklegt að frekari hömlur á bari og veitingastaði í Kaupmannahöfn verði meðal þess sem kynnt verður á morgun. Sem stendur mega þeir vera opnir til klukkan 22. Danska ríkisútvarpið ræddi í gær við nokkra sérfræðinga úr háskólasamfélaginu sem allir voru sammála um að tímabært væri að loka þessum stöðum.

Einstefna á Strikinu og ungt fólk í sýnatöku

Þegar hafa verið gefin út tilmæli til íbúa Kaupmannahafnarsvæðisins, sem gilda frá og með mánudeginum 7. desember.

Aðgengi að sýnatöku hefur verið aukið og eru allir á aldrinum 15-25 ára hvattir til að fara í sýnatöku sem fyrst.

Vinnuveitendur eru hvattir til að bjóða öllum starfsmönnum að vinna heima, sé þess kostur.

Háskólar eru hvattir til að hafa alla kennslu og próf á netinu.

Þá verður einstefnu komið á helstu göngugötur, þar með talið á Strikinu. Hingað til hefur þeim verið skipt í tvennt og ætlast til þess að fólk héldi sig hægra megin.

„Lögreglan má loka þessu svæði“. Skiltum á borð við þetta …
„Lögreglan má loka þessu svæði“. Skiltum á borð við þetta hefur verið komið fyrir á fjölförnum svæðum í miðborg Kaupmannahafnar. mbl.is/Alexander
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert