Flytja inn fólk þrátt fyrir 200.000 atvinnulausa

Ekki er á vísan að róa með vertíðarstarfsfólk í vinnsluhús …
Ekki er á vísan að róa með vertíðarstarfsfólk í vinnsluhús Myremar í Vesterålen nú þegar „vinterfiske“ stendur fyrir dyrum, vetrarsóknin á norsk mið. Þrátt fyrir metatvinnuleysi í Noregi, 200.000 manns, flytja fiskvinnslufyrirtækin norður í landi nú inn 3.000 manns frá Litáen, Lettlandi, Rúmeníu, Póllandi og fleiri löndum til að standa við færibandið þar sem Norðmenn finna greinilega enga ró. Ljósmynd/Myremar

Fiskvinnslufyrirtæki í Norður-Noregi líta nú í kringum sig eftir mörg þúsund starfsmönnum fyrir komandi vetrarvertíð. Á vísan skyldi vera að róa nú, þegar 200.000 manns eru í atvinnuleit í Noregi í kjölfar strandhöggs kórónuveirunnar sem hefur hvað drjúgast drukkið blóð norsks vinnumarkaðar síðan síðari heimsstyrjöld geisaði.

Ekki er þó á vísan að róa í mönnunarmálum fiskvinnslufyrirtækjanna sem fá vart bein úr sjó á þeim vettvangi þrátt fyrir metatvinnuleysi. Hafa mörg þeirra því brugðið á það ráð að flytja inn vertíðarstarfsfólk frá Litáen, Póllandi og fleiri löndum austur í álfu þar sem skórinn kreppir ekki síður í faraldrinum og fjöldi fólks er á vonarvöl.

Ná ekki til atvinnuleitenda

Eitt þessara fyrirtækja er Myremar í Vesterålen í Nordland-fylki sem kýs, að sögn framkvæmdastjórans Vårinn Marie Lassesen, ekkert frekar en að lokka til sín atvinnulausa íbúa Noregs í vinnu. Hún telur norsku vinnumálastofnunina NAV ekki standa sig í stykkinu við að miðla upplýsingum um laus störf til skjólstæðinga sinna.

„Við búum ekki við kerfi sem nær til þeirra sem þurfa atvinnutilboð,“ segir Lassesen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og undirstrikar mikilvægi þess að fólk sem er atvinnulaust, eða permitterað, sem kallað er, það er situr heima og þiggur hluta af launum sínum án þess að hafa verið sagt upp, eigi þess kost að sækja um laus störf.

Vissulega hafa einhverjir Norðmenn sýnt fiskvinnslustörfunum áhuga, en margir þeirra líta á kostnaðinn við að flytja norður sem óyfirstíganlega hindrun. Myremar á því von á milli 15 og 20 erlendum starfsmönnum.

Hafði samband við hótelkeðju

„Þetta er engin óskastaða, en okkur er nauðugur einn kostur – og ekki bara okkur,“ segir framkvæmdastjórinn og bendir á að þörf fyrirtækjanna í Norður-Noregi fyrir vertíðarstarfsfólk liggi á bilinu 3.000 til 5.000 manns, en fyrir um hálfum mánuði greindi NRK frá því að 3.000 manns væru á leið í vinnu hjá fyrirtækjum í Lofoten, Vesterålen og Troms frá Litáen, Lettlandi, Rúmeníu og Póllandi, kórónuveira eður ei. „Við ættum ekki að þurfa að flytja inn fólk,“ segir Lassesen um flutningana.

Tvö hundruð þúsund í atvinnuleit í Noregi teljast 6,9 prósent fólks á vinnumarkaði í landinu sem er fáheyrð tala, en kemur ef til vill ekki á óvart þegar litið er til þess að í marsmánuði einum sendu norsk hótel 3.000 manns heim í permitteringu. Myremar hefur þegar brugðist við þessu og gerði hótelkeðjunni Nordic Choice Hotels orð fyrir skömmu með boði um tímabundin störf í fiskvinnslu fyrir hótelstarfsfólkið sem nú situr heima. Viðbrögðin þaðan voru jákvæð en engu að síður hafa umsóknirnar ekki streymt inn.

Fyrir helgi greindi NRK frá því að Robert Erikson, formaður Sjømatbedriftene, samtaka fiskvinnslufyrirtækja, og reyndar einnig fyrrverandi atvinnumálaráðherra Framfaraflokksins FrP, vildi lokka atvinnulausa að færiböndum fiskvinnsluhúsanna með því að leyfa þeim að halda fimmtungi atvinnuleysisbóta auk fullra vinnulauna.

Viss um að marga fýsir norður

Vegard Einan, ráðuneytisstjóra í atvinnu- og félagsmálaráðuneytinu, líst illa á slíkt gylliboð og kveður það mismuna atvinnuleitendum auk þess sem ekki kunni það góðri lukku að stýra að nota dagpeninga sem beitu til að fólk sæki um vinnu.

Þess í stað ættu fiskvinnslufyrirtækin að hans mati að vera duglegri við að auglýsa laus störf á heimasíðu NAV. „Hér eru 200.000 ferilskrár frá atvinnuleitendum um allt land. Við lauslega leit núna koma engar lausar stöður í fiskiðnaði fram,“ segir ráðuneytisstjórinn.

„Hér ættu fiskvinnslufyrirtækin að sjá sér leik á borði og hafa samband við NAV. Þú verður að hefja leitina þar sem vinnuaflið er á fleti fyrir. Ég er viss um að þar eru margir sem fýsir að koma til Norður-Noregs í vinnu í vetur,“ segir Einan að lokum.

NRK

NRKII (vill bjóða laun og dagpeninga)

NRKIII (3.000 á leið í vinnu frá A-Evrópu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert