Becerra næsti heilbrigðisráðherra

Xavier Becerra.
Xavier Becerra. AFP

Ríkissaksóknari Kaliforníu, Xavier Becerra, verður heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Joe Biden samkvæmt fréttum New York Times, NBC og fleiri bandarískra fjölmiðla. 

Becerra var áður þingmaður í fulltrúadeildinni fyrir Los Angeles en tók við embætti ríkissaksóknara í Kaliforníu árið 2017 eftir að forveri hans í starfi, Kamala Harris, var kjörin í öldungadeild Bandaríkjaþings árið 2016.

Becerra var ötull í baráttu fyrir réttindum fólks frá Rómönsku-Ameríku er hann sat á þingi auk heilbrigðisstefnu Baracks Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Stefnu sem Donald Trump forseti og ríkisstjórn hans hafa barist hatrammlega gegn síðustu fjögur árin.

Becerra, sem er 62 ára, er fyrsti ríkissaksóknari Kaliforníu af rómönskum uppruna. Hann hefur einnig barist fyrir réttindum innflytjenda, DACA, fyrir hæstarétti.

Ef þetta verður staðfest mun Becerra taka við keflinu í heilbrigðisráðuneytinu og baráttunni við Covid-19 sem hefur dregið yfir 282 þúsund Bandaríkjamenn til dauða á nokkrum mánuðum.

Rochelle Walensky.
Rochelle Walensky. Massachusetts General Hospital

Biden hefur ákveðið að Rochelle Walensky muni verða yfirmaður sóttvarnastofnunar en hún stýrir farsóttadeild sjúkrahúsa í Massachusetts. Hún er einnig prófessor við læknadeild Harvard-háskóla.

Hún mun taka við starfi forstjóra CDC af Robert Redfield en hann hefur verið harðlega gagnrýndur af Trump og bandamönnum hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert