Bóluefni Pfizer veitir skjótvirka vörn

Bóluefni Pfizer og BioNTech þykir gefa góða raun og kann …
Bóluefni Pfizer og BioNTech þykir gefa góða raun og kann að fá leyfi bandaríska lyfjaeftirlitsins innan nokkurra daga. AFP

Bóluefnið við kórónuveirunni, sem lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNTech hafa þróað, veitir sterka vörn gegn veirunni innan við tíu dögum eftir fyrsta skammt. Þessar niðurstöður eru meðal hinna helstu, sem fram koma í skýrslum bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA), og gefa góðar vonir um hversu vel bóluefnið reynist.

Sama dag bárust fregnir af rannsókn í Bretlandi, sem bendir til þess að frekari rannsókna sé þörf varðandi skammta og skammtastærðir á bólefni AstraZeneca, sem oft er kennt við Oxford. Það er talið geta veitt um 90% vörn, en mögulega ekki nema um 70%, sem þó er vel yfir þeim 50% þröskuldi, sem miðað er við. Dreifing á því hófst í gær.

Í síðasta mánuði kom fram að með að gefa tvo skammta af bóluefni Pfizer með þriggja vikna millibili reyndist það veita 95% vörn gegn veirunni. Fyrri skammturinn einn og sér virðist veita 52% vörn. Þessar nýju upplýsingar benda til þess að líkaminn reisi varnir sínar gegn kórónuveirunni mun fyrr en áður var talið. Ekki síður eru það þó góðar fregnir, að bóluefnið virðist gefa jafngóða raun, óháð aldri, þyngd, kynferði eða kynþætti, en veiran leggst sem kunnugt er mjög misþungt á fólk eftir ýmsum slíkum þáttum, misvelþekktum.

Prófanir lyfjaeftirlitsins og Pfizer benda til þess að bóluefnið valdi engum alvarlegum aukaverkunum, en margir fundu þó fyrir ýmsum aukaverkunum, verkjum, hita og ýmsu öðru. Þrátt fyrir það þykja prófanirnar staðfesta að bóluefnið virki eins vel, eins og vonast má til.

Ónæmisráðgjafaráð FDA mun koma saman á fimmtudag til þess að fara yfir skýrslurnar, en að því loknu verða greidd atkvæði um hvort mælt skuli með því að leyft verði að nota bóluefnið á almenning. Miðað við þessar niðurstöður er afar ólíklegt að svo fari ekki.

Bóluefnið reynt á 22.000 manns

Pfizer og BioNTech hófu prófanir á bóluefninu í júlí, en það var reynt á 44.000 sjálfboðaliðum í Bandaríkjunum, Brasilíu og Argentínu. Helmingur þeirra fékk bóluefnið, hinn helmingurinn lyfleysu.

Ný smit í bóluefnishópnum drógust verulega saman um 10 dögum eftir fyrsta skammt, en meðal þeirra sem fengu lyfleysuna hélt þeim áfram að fjölga. Þessi skjóta virkan bóluefnisins lofar ekki aðeins góðu fyrir allan almenning, heldur einnig heilbrigðiskerfin, sem víða eru við þolmörk vegna fjölda sjúklinga, sem þurfa að komast í gjörgæslu.

Þrátt fyrir þessa skjótvirku vörn, sem fyrsti skammturinn veldur, er óvíst hversu lengi hún endist ein og óstudd, svo annar skammtur bóluefnisins er talinn bráðnauðsynlegur. Fyrri prófanir benda allar til þess að síðari skammturinn auki viðnám líkamans gegn veirunni verulega og mun varanlegar, líkt og þekkist um mörg bóluefni önnur.

Prófanir halda áfram

Prófanir á bóluefninu munu halda áfram, óháð því hvort FDA samþykkir það og það fer í dreifingu til fjöldabólusetningar um víða veröld. Lyfjafyrirtækin hyggjast fylgjast grannt með þeim sem gengust undir prófanirnar til þess að ganga úr skugga um það haldi áfram að veita tilætlaða vörn og hafi engar alvarlegar aukaverkanir. Sem kunnugt er hafa bóluefni gegn kórónuveirunni fengið sérstaka flýtimeðferð í þróun, prófunum og notkun, en þess vegna er talið rétt að halda prófunum áfram eftir að það yrði tekið í notkun.

Aukaverkanir virðast aðallega koma fram eftir seinni skammt bóluefnisins, en margir fundu til lasleika nokkrum stundum eftir síðari gjöfina. Meira en helmingur þeirra, sem fengu bóluefnið kvörtuðu undan þreytu í kjölfarið og svipað hlutfall undan höfuðverk. Tæplega þriðjungur fann fyrir hrolli og ríflega þriðjungur fyrir vöðvaverkjum. Læknar telja því rétt að gera ráð fyrir því að margir taki sér dag frá vinnu eftir seinni skammtinn.

Sömuleiðis þurfi að halda almenningi upplýstum um þessar mögulegu aukaverkanir, bæði til þess að viðhalda trausti hans til bóluefnisins og draga úr mögulegum kvíða fólks, þar sem aukaverkanirnar minni um margt á einkenni kórónuveirusýkingar. Þær séu þvert á móti til marks um það að bóluefnið sé að gera sitt gagn og espa ónæmiskerfi líkamans upp til varna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert