Einblíndu of mikið á íslamista

Mistök voru gerð af hálfu lögreglu og leyniþjónustu á Nýja-Sjálandi fyrir hryðjuverkaárásina í Christchurch í fyrra. Stofnanirnar hefðu aftur á móti ekki getað komið í veg fyrir drápið á 51 múslima í og við tvær moskur í borginni. Þetta er niðurstaða rannsóknar á hryðjuverkaárásinni sem var framin af áströlskum vígamanni og birt var í dag.

Rannsóknin var gerð á æðsta dómstigi landsins og er í henni lagt til að algergjörlega verði breytt um takt þegar kemur að aðgerðum í hryðjuverkamálum. Ástralinn Brenton Tarrant, sem trúir á ofurmátt hvíta kynstofnsins, var einn að verki í Christchurch.

Ekki horft á hættuna sem fylgir öfgasinnuðum þjóðernissinnum

Í skýrslunni, sem er 800 bls. að lengd, segir að leyniþjónustan hafi lagt óeðlilega áherslu á íslamska öfgamenn fyrir árásina án þess að horfa til hættunnar sem fylgi öfgasinnuðum þjóðernissinnum sem trúa á æðri mátt hvíta kynstofnsins og að þeir fremji hryðjuverk.

Jafnframt hafi lögregla ranglega samþykkt skotvopnaleyfi sem gerði Tarrant mögulegt að sanka að sér þeim vopnum sem beitt var við versta fjöldamorð í nútímasögu Nýja-Sjálands.

Aftur á móti kemur ekki fram í skýrslunni að hægt hefði verið að koma í veg fyrir fjöldamorðin þar sem aðeins brotakenndar upplýsingar voru til um Tarrant á þeim tíma og því ekki hægt að líta á hann sem ógn. 

Ekkert bendir til þess að hann hefði getað verið stöðvaður nema fyrir tilviljun segir í skýrslunni um árásina sem gerð var í mars 2019. Árás þar sem vígamaðurinn réðst gegn körlum, konum og börnum sem höfðu komið saman til bænahalds í borginni. 

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, fagnar skýrslunni og ýjar að því að allar tillögur, 44 alls, verði samþykktar og að áherslum hafi verið breytt og ekki lengur horft til múslima einvörðungu. Jafnframt bendir hún á að lögum skotvopn hafi þegar verið breytt. 

„Nefndin fann ekkert sem bendir til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina en samt sem áður hafa verið gerð mistök og ég biðst afsökunar á því,“ sagði Ardern í dag. 

Tarrant, sem er þrítugur að aldri, er fyrsti einstaklingurinn sem er dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn á Nýja-Sjálandi. Hann játaði sök við réttarhöldin ágúst. Að hafa framið 51 morð og 40 morðtilraunir þennan dag í mars í fyrra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka