Í Ástralíu er kom í dag fram stjórnarfrumvarp, sem kveður á um að netrisar á borð við Facebook og Google þurfi að semja við fjölmiðla um sanngjarnar greiðslur fyrir afnot af efni þeirra í fréttastraumum og leitarniðurstöðum. Takist samningar ekki mun ríkið skera úr um það og skylda fyrirtækin til greiðslna. Þetta er fyrsta löggjöf sinnar tegundar í heiminum og kann að reynast fordæmi í öðrum ríkjum ef vel þykir takast til.
Markmiðið með löggjöfinni er að bæta hefðbundnum fjölmiðlum upp hrun í auglýsingatekjum undanfarin ár, sem hefur verið mjög í takt við auglýsingasölu félagsmiðla og leitarvéla á netinu. Þar er efni fjölmiðla mjög fyrirferðarmikið, en þeir njóta ávaxta erfiðisins í mjög litlum og óbeinum mæli.
Auglýsingatekjur netmiðla hvers kyns hafa aukist hröðum skrefum allt frá aldamótum, en þar af tekur Google til sín 53% og Facebook 28% á heimsvísu. Af þeim tekjum borga netrisarnir ekki skatta í viðkomandi ríkjum, þó svo auglýsingunum sé velflestum beint á tiltekin lönd eða landsvæði. Um leið minnka auglýsingar innanlandsmiðlanna sem hefur grafið undan rekstrarskilyrðum þeirra og minnkað skatttekjur af þeim.
Í Ástralíu, líkt og víðar, hefur fjölmiðlum fækkað mikið og þeir sem eftir standa standa veikir eftir langvinnan niðurskurð og hagræðingu eftir því sem tekjurnar halda áfram að dragast saman.Svo mjög að óttast er að nauðsynleg fréttamiðlun geti mikið lagst af. Þetta þykir hálfu bagalegra fyrir það að netrisarnir notfæra sér efnisframleiðslu fjölmiðla í mjög miklum mæli, en án nokkurs afgjalds.
Ástralir eru ekki einir um áhyggjur af þessu tagi, enda starfa netrisarnir á alþjóðavettvangi og skáka raunar nokkuð í því skjóli að vera alls staðar og hvergi.
Frakkar hafa þannig einnig tekið til sinna ráða, en í vor skyldaði samkeppnisstofnun þar í landi Google til þess að semja „í góðri trú“ við franska miðla um afnot af efni þeirra, en í fyrra var höfundaréttarlögum breytt, svo þau næðu til styttri fréttaglefsa. Viðbrögð Google voru hins vegar að hætta að birta franskt fréttaefni í leitarniðurstöðum og á Google News, sem Frakkar líta á sem óbilgirni markaðsráðandi aðila.
Því máli er ekki lokið, en Frakkar vonast til þess að fá Evrópusambandið í lið með sér. Erfitt er að segja fyrir um hvernig úr því spilast. Spænsk stjórnvöld reyndu að fara í hart við Google árið 2014, en netrisinn lokaði einfaldlega fyrir fréttaveitu sína til landsins. Hún er enn lokuð.
Þegar hin hægrisinnaða ríkisstjórn Frjálslynda flokksins í Ástralíu kynnti fyrst áform sín um frumvarpið í sumar voru viðbrögð Facebook nokkuð á sömu leið, að fyrirtækið myndi einfaldlega loka fyrir fréttadreifingu á Facebook í Ástralíu.
Bretar hafa hins vegar komist að samkomulagi við Facebook um að það semji við breska fjölmiðla um greiðslur vegna hagnýtingar efnis þeirra. Facebook hefur ekkert viljað gefa uppi um hvaða fjárhæðir séu þar í tafli, en velflesta fjölmiðla þar munar um hvað sem er. Greinendur telja þó flestir að Facebook sé þar að sleppa mjög vel.
Í Bandaríkjunum hafa blaðaútgefendur og blaðamenn lengi kvartað undan netrisunum. Þar binda menn helst vonir við að rétta hlut sinn af samkeppnisástæðum, þó fram hafi komið ýmsar tillögur aðrar. Ríkisstjórn Donalds Trump var ófús til þess að auka regluverk á þeim sviðum sem öðrum, en Joe Biden verður vafalaust óragari við að sveifla þeim lurki. Hann hefur verið gagnrýninn á netrisana öðru hverju, ekki síst Facebook. Þeir dældu raunar peningum í kosningasjóði hans, en það virðist ekki hafa haft mikið að segja, a.m.k. hafa stjórnmálaskýrendur í Washington veitt því athygli að þrátt fyrir að í valdaskiptaliði hans sé mikið af stjórnendum úr tæknigeiranum, er enginn þeirra með tengsl við Facebook eða Google.
Þessi mál verða tæplega til lykta leidd á næstu misserum og raunar má telja ólíklegt að það gerist nokkru sinni fyrr en ríki helstu neytendamarkaða heims koma sér saman um sameiginlega og sanngjarna nálgun í þeim efnum. Sem er alls óvíst að takist.