Gögnum frá Pfizer og BioNTech stolið

Gögnum Pfizer og BioNTech var stolið í netárás á Evrópsku …
Gögnum Pfizer og BioNTech var stolið í netárás á Evrópsku lyfjastofnunina, EMA. AFP

Tölvuþrjótar hafa brotist inn í gögn Evrópsku lyfjastofnunarinnar, EMA, og stolið þaðan gögnum um bóluefni lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech. Í tilkynningu frá Pfizer segir að gögnin snerti bæði bóluefnið sjálft og hvernig því verður dreift til ríkja heimsins.

„Það er mikilvægt að taka fram að ekki var brotist inn í tölvukerfi BioNTech eða Pfizer og við vitum ekki til þess að þrjótarnir hafi komist í nein persónuleg gögn,“ segir í tilkynningu frá Pfizer. Ekki hefur verið greint frá því hvenær árásin var gerð en bandaríski tæknirisinn IBM gaf út viðvörun fyrir sex dögum síðan að árás tölvuþrjóta væri yfirvofandi.

Enn gerir EMA ekki ráð fyrir að gagnastuldurinn muni hafa áhrif á dreifingu bóluefnisins.

Vel skipulögð árás

Anton Egilsson, sem er yfir öryggismálum hjá Origo, segir í samtali við mbl.is að enn líti ekki út fyrir að þetta muni hafa áhrif á Ísland. Það geti þó breyst eftir því sem fleiri upplýsingar um gagnastuldinn komi í ljós. 

Anton segir að um sé að ræða mjög vel skipulagða árás sem hafi verið í bígerð frá því í september. Því hafi sérfræðingar dregið þá ályktun að mögulega standi eitthvað ríki að baki árásarmönnunum.

Ekki er ljóst hvort gögnum Moderna hafi einnig verið stolið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert