Auður þeirra efnuðust í Bandaríkjunum hefur aukist um meira en eina billjón (milljón milljónir) bandaríkjadala frá því kórónuveirufaraldurinn hófst samkvæmt nýrri skýrslu.
Sameiginlegur auður 651 milljarðamærings í Bandaríkjunum jókst úr 2,95 billjónum í 4,01 billjón dala samkvæmt tölum Institute for Policy Studies and Americans for Tax Fairness (ATF).
Aldrei áður hefur jafn mikill auður safnast á fárra hendur og nú, segir Frank Clemente, framkvæmdastjóri ATF. Hann bendir á að aukningin sé meiri en sú fjárhæð sem tekist er á um á Bandaríkjaþingi varðandi aðgerðir til stuðnings fyrirtækja og annarra vegna Covid-19.
Á þriðjudag lagði Hvíta húsið fram frumvarp til laga um 916 milljarða dala stuðningsaðgerðir í efnahagslífinu. Þetta er heldur hærri fjárhæð en hópur öldungadeildarþingmanna lagði til í síðustu viku.
Höfundar rannsóknarinnar segja að þessi billjón gæti dugað til eingreiðslu vegna Covid-19 til allra Bandaríkjamanna, rúmlega 300 milljóna, upp á 3 þúsund dali, sem svarar til 380 þúsund íslenskra króna.