Nefnd sérfræðinga hjá Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna greiddi atkvæði með því að veita bráðaheimild fyrir notkun bóluefnis Pfizer-BioNTech við Covid-19. Þetta eykur líkurnar á að Bandaríkin verði næsta ríkið þar sem bólusetningarherferð fer af stað til að koma á hjarðónæmi.
Tæplega 6 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum síðust tvo sólarhringa og fjöldi dauðsfalla nálgast 300 þúsund.
Bretar voru fyrsta þjóðin til að hefja almennar bólusetningar með bóluefninu frá Pfizer-BioNTech og lyfjaeftirlit Kanada, Barein og Sádi-Arabíu hafa einnig samþykkt bóluefnið.
Ríki ESB og EES bíða eftir grænu ljósi frá Lyfjastofnun ESB um heimild til að taka bóluefnið í notkun. Stofnunin segir að vel miði þrátt fyrir að tölvuþrjótar hafi herjað á stofnunina í tvær vikur.
17 nefndarmenn sjálfstæðrar nefndar sérfræðinga á vegum Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, Food and Drug Administration (FDA), greiddu atkvæði með veitingu bráðaleyfis, fjórir greiddu atkvæði gegn og einn sat hjá. Atkvæðagreiðslan er ekki bindandi fyrir FDA en fastlega er gert ráð fyrir því að stofnunin veiti leyfið innan nokkurra daga.