Æfing í kjarnorkuveri breyttist í alvöru

Olkiluoto-kjarnorkuverið í Finnlandi.
Olkiluoto-kjarnorkuverið í Finnlandi. AFP

Sjálfvirk slokknun átti sér staði í kjarnaofni 2 í Olkiluoto-kjarnorkuverinu á vesturströnd Finnlands 10. desember síðastliðinn. Plastefni brotnuðu niður í leiðslum í ofninum þegar of heitt vatn rann um þær. Plastefnin runnu síðan óhindruð með vatninu inn í kjarnaofninn með þeim afleiðingum að plastefnin urðu geislavirk.

Þetta þykir minniháttar atvik sem ekki væri í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að Alþjóðlega kjarnorkustofnunin stóð fyrir alþjóðlegri æfingu, sem sviðsett var í sama kjarnorkuveri, og lenti svo í þessari uppákomu daginn eftir. 

Þegar mbl.is spurði Gísla Jónsson, sérfræðing hjá Geislavörnum ríkisins, út í tilkynningu á vef stofnunarinnar um „atvik í finnsku kjarnorkuveri“ sagði hann að ekki væri allt sem sýndist.

Æfing varð að alvöru

„Það fyndna við þetta er að daginn áður en atvikið á sér stað í þessu finnska kjarnorkuveri stóð Alþjóðakjarnorkumálastofnunin fyrir æfingu sem átti að gerast í þessu sama kjarnorkuveri og atvikið kom upp í,“ segir Gísli.

„Þannig að þegar við fáum tilkynningu um að eitthvert atvik hafi komið upp á í sama finnska kjarnorkuverinu og æfingin var, þá var erfitt að skilja hvort þetta væri æfing eða í alvöru.“

Gísli lýsir því svo hvernig samskiptafulltrúi í finnska kjarnorkuverinu gleymdi að afmá undirskrift sína sem framkvæmdastjóri æfingarinnar með tilheyrandi ruglingi.

„Fulltrúinn sem hafði stýrt samskiptum Finna meðan á æfingunni stóð gleymdi að breyta undirskrift sinni á tilkynningar frá þeim eftir æfinguna, þannig að þegar hann svo tilkynnti alvöruatvikið þurfti hann að árétta eftir á að hann hefði vissulega gleymt að breyta undirskrift sinni sem stjóri æfingarinnar, því það var jú engin æfing lengur í gangi.“

Rétt er að taka fram að engin geislun hlaust af uppákomunni í finnska verinu og því engin hætta á ferðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert