Armenar og Aserar saka nú hvorir aðra um að brjóta friðarsamkomulag, sem skrifað var undir fyrir tilstilli Rússa og batt enda á átök um hið umdeilda hérað Nagornó-Karabak. Aserar segja að fjórir hermenn þeirra hafi látist síðan friðarsamkomulag var undirritað seint í nóvember. Þá sögðu Armenar í gær að þrír hermenn þeirra hefðu særst í átökum við aserska hermenn nýverið.
Svo virðist sem átök séu að brjótast út að nýju á svæðinu.
Rúmlega 5.000 manns, óbreyttir borgarar jafnt sem hermenn, hafa látist frá því að átök brutust út milli Asera og Armena í september. Héraðið sem um er deilt, Nagornó-Karabak, hefur verið bitbein ríkjanna tveggja síðan þau fengu bæði sjálfstæði eftir fall Sovétríkjanna.
Þegar friðarsamkomulag var undirritað í nóvember þótti mörgum ljóst að aðeins væri tímaspursmál hvenær kæmi aftur til átaka. Forsætisráðherra Armena, Nikol Pashinyan, hefur verið harðlega gagnrýndur í heimalandinu fyrir uppgjöf sína í stríðinu. Frá því að hann skrifaði undir friðarsamning og játaði þar með ósigur í stríðinu við Asera hafa brotist út óeirðir í Jerevan, höfuðborg landsins.