Kínverjar með stærsta njósnaranet í heimi?

Erlendir miðlar fjalla nú um gagnalekann sem leiðir líkum að …
Erlendir miðlar fjalla nú um gagnalekann sem leiðir líkum að því að fjölmargir starfsmenn flokksins gegni trúnaðarstöðum um allan heim. AFP

Erlendir miðlar á borð við Dailywire, Sky News og Daily Mail fjalla nú um stórfelldan gagnaleka sem leiðir í ljós persónuupplýsingar 1,95 milljóna meðlima og starfsmanna Kínverska kommúnistaflokksins, sem búa og vinna víða um heim og gegna trúnaðarstöðum víða, t.a.m. í stjórnsýslunni, innan fyrirtækja sem framleiða bóluefni, í fluggeiranum og víðar.

Lekinn inniheldur lista yfir nöfn, stöðu manna innan flokksins, fæðingardag, kennitölu, uppruna og í sumum tilfellum símanúmer. Gögnunum var upprunalega lekið í september síðastliðnum í gegnum samskiptamiðilinn Telegram, að því er Daily Mail greinir frá.

„Spurningin sem margir hljóta að spyrja sig, nú þegar gögnin eru opinber, er hvort Kínverjar séu að reka stærsta njósnaranet í heimi,“ segir Anton Egilsson, forstöðumaður öryggislausna hjá Origo, í samtali við mbl.is, þegar hann er beðinn að skýra nánar út þýðingu lekans.

Segir í frétt Daily Mail að meðlimir flokksins sverji eið þar sem þeir heiti því að vera hliðhollir flokknum, vinna í þágu kommúnisma og aldrei svíkja flokkinn. Er þar einnig fullyrt að margir þeirra starfi m.a. í breskum sendiráðum. 

Telja 123 vinna hjá Pfizer og AstraZeneca

Jafnframt er fullyrt að 123 meðlimir flokksins starfi hjá bóluefnaframleiðendunum Pfizer og AstraZeneca en yfir 600 meðlimir hafi unnið fyrir bresku bankana HSBC og Standard Chartered árið 2016.

Að auki hafi fyrirtæki sem hafa hagsmuna að gæta á sviði varnarmála haft í vinnu hjá sér hundruð meðlima flokksins, þ.á m. Airbus, Boeing og Rolls-Royce. 

Breski miðillinn The Mail on Sunday hefur haft eftir leiðtoga breska Íhaldsflokksins, Iain Duncan Smith, að „gagnalekinn sýni fram á að flokkurinn teygi anga sína um allan heim, þar sem meðlimir hans hafi fest rætur hjá mikilvægum alþjóðastofnunum, akademískum stofnunum og í stjórnsýslunni“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert