Allt bendir til þess að nánast öllu verði skellt í lás í Hollandi á næstu dögum vegna fjölda nýrra smita. Á miðvikudag verður öllum verslunum sem ekki selja nauðsynjavörur lokað í Þýskalandi og skólum lokað. Þar mega að hámarki fimm koma saman.
Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, mun ávarpa þjóðina klukkan 19 að staðartíma í kvöld, klukkan 18 að íslenskum tíma. Þar mun hann kynna hertar sóttvarnaráðstafanir að því er segir í hollenskum fréttum í dag. Flestir gera ráð fyrir að öðrum verslunum en matvöru- og lyfjaverslunum verði lokað, leikhúsum, söfnum og skemmtigörðum.
Um helgina hélt nýjum smitum áfram að fjölga í Hollandi og alls voru um 10 þúsund ný smit staðfest í gær.
Rutte mun tala frá skrifstofu sinni og það gerir hann aðeins ef um mikilvægar tilkynningar er að ræða. Annars eru upplýsingafundir haldnir í sérstökum sal fyrir blaðamannafundi.
Rutte hefur aflýst fundi sem hann ætlaði að eiga með starfsbróður sínum í Belgíu, Alexander De Croo, í dag vegna stöðu mála innanlands. Jafnframt ætlar Rutte að funda með leiðtogum allra flokka á þingi síðar í dag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að rekja megi fjölgun smita til jólaverslunar þar í landi en um helgina fjölgaði smitum um rúmlega 20 þúsund og yfir 320 létust. Nýjar aðgerðir taka gildi þar í landi 16. desember og gilda til 10. janúar.
Alls mega að hámarki fimm einstaklingar af tveimur heimilum koma saman innanhúss en frá 24. til 26. desember verður aðeins slakað á reglunum. Þannig að yfir jólin má bjóða fjórum nánum fjölskyldumeðlimum, sem búa á öðru heimili, heim til sín.
Veitingastaðir, barir og skemmtigarðar hafa verið lokaðir frá því í nóvember og í einhverjum sambandsríkjum Þýskalands hefur verið sett á útgöngubann að hluta.
Samkvæmt nýju reglunum mega bankar vera opnir og eins sölustaðir jólatrjáa. Aftur á móti verður hárgreiðslustofum lokað og fyrirtæki hvött til að leyfa fólki að vinna heima.