Það getur ekki talist bjart útlitið sem blasir við samninganefndum Breta og Evrópusambandsins sem þráast nú við að komast að samkomulagi um útgöngu Breta úr ESB. Um áramót lýkur aðlögunartímabilinu (e. transition period) sem ákveðið var í lok janúar á þessu ári, að myndi gilda til 31. desember 2020.
Það þýðir að Bretar hafi farið út úr ESB 31. janúar 2020 en gefið sér til 31. desember 2020 til þess að ná samningum við ESB um útgönguna. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands hafa gefið það út að þau muni halda áfram að reyna að ná samkomulagi þrátt fyrir að langt sé í land.
Til einföldunar má segja að viðræður um útgöngu Breta úr ESB strandi á þremur meginatriðum sem samningsaðilar ná ekki saman um.
Evrópusambandið vill, eftir Brexit, ennþá geta fengið fullan aðgang að breskri efnahagslögsögu, þar sem lönd innan Evrópusambandsins veiða fisk fyrir um 600 milljónir punda á ári, eða rúmlega 102 milljarða íslenskra króna. Bretar vilja þó halda þessu útaf fyrir sig og segja að strax um áramót muni þeir forgangsraða breskum fiskiskipum innan efnahagslögsögu sinnar, um leið og landið verður sjálfstæð fiskveiðiþjóð utan lögsögu Evrópulöggjafar um fiskveiði.
Regluverk í kringum framleiðslu, viðskipti og atvinnu getur haft mikil áhrif á samkeppnishæfni landa. ESB hefur miklar áhyggjur af því að Bretar geti losað sig við alls konar lög sem gilda innan ESB um t.a.m. réttindi verkafólks, umhverfisáhrif stórfyrirtækja og annað slíkt, sem gerir breskum fyrirtækjum kleift að auka samkeppnishæfni sína í samanburði við ríki ESB. Þess vegna vilja þau að Bretland haldi áfram að lúta lögum ESB svo að Bretland fái ekki forskot á ríki ESB.
Bretar, sem eru hlynntir Brexit, segja þó að þetta sé ein aðalástæðan fyrir því að þeir hafi viljað að Bretland gengi út úr ESB til að byrja með. Bretland eigi ekki að þurfa að lúta lögum Evrópusambandsins sem aftrar þeim að stunda viðskipti eins og þeim hentar.
Þetta þrætuepli er ansi einfalt. Komi til þess að Bretar og ESB nái saman um útgöngu Breta, þá mun liggja fyrir samningur um hvernig viðskiptum þeirra á milli verður háttað. Eins og með flesta aðra samninga þá verður hægt að fara á mis við ákvæði hans.
Það er einmitt það sem Bretar og ESB hafa ekki náð saman um, hvað skal gera þegar annar aðilinn brýtir gegn ákvæðum samnings þeirra á milli?
ESB hefur lagt til að ef annar aðili brjóti gegn einu ákvæði samningsins að þá geti hinn aðilinn beitt viðskiptaþvingunum. Svo hafa verið deildar meiningar um hver aðkoma Evrópudómstólsins ætti að vera, dómstóls sem dæmir í málum er snúa að lögum ESB.
Samningaviðræður um þetta tiltekna atriði eru á ansi viðkvæmu stigi þar sem niðurstaða þeirra viðræðna gæti slegið tóninn í sambandi Breta og ESB næstu áratugina, ef marka má umfjöllun BBC.
Ef enginn samningur næst milli Bretlands og ESB þá hætta þau að gera viðskipti milli sín á grundvelli Evrópusambandslöggjafar og gera viðskipti sín á milli á grundvelli laga Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO).
Vörur sem fara frá Bretlandi til ESB yrðu tollskyldar og því dýrari í kaupum. Að sama skapi yrði dýrara fyrir Breta að kaupa það sem flutt er inn frá ESB. Hins vegar gæti orðið ódýrara fyrir Breta að versla vörur frá löndum sem nú eru tollskyldar við komuna inn í ESB, þar sem þeir geta þá fellt niður tolla á allt slíkt.
Þá hafa eigendur stórmarkaða í Bretlandi áhyggjur af úrvali í matvörubúðum. Minna verður til af ferskum vörum og því þarf að leita annað en til Evrópu til að flytja inn ávexti, grænmeti, kjöt og fisk, með tilheyrandi kostnaði og hækkandi verði.
Einnig má gera ráð fyrir að gríðarlega langar raðir vöruflutningabíla myndist á landamærum Bretlands og ESB þar sem umfangsmeira eftirlits er krafist með öllum vöruflutningum yfir landamærin. Þetta gæti seinkað sendingum á alls kyns vörum; matvöru, fatnaði, lyfjum og annarri nauðsynjavöru.
Samningur milli Bretlands og ESB verður líklega ekki undirritaður fyrir áramót, þ.e. fyrir lok aðlögunartímabilsins. Bæði Bretar og ESB hafa þó sagt að vilji sé til þess að halda áfram viðræðum, til þess að skoða hvort möguleiki sé á því að ná saman.
Náist ekki samningur munu fjölmörg atriði í samskiptum Breta og ESB breytast strax þann 1. janúar 2021. Þetta eru einna stærstu breytingarnar: