Netárás gerð á bandarísk ráðuneyti

AFP

Ríkisstjórn Bandaríkjanna staðfesti í gær að tölvukerfi hennar hafi orðið fyrir netárás. Staðfestingin kom í kjölfar fréttar Washington Post um að rússneskir tölvuþrjótar hefðu gert árás á tölvukerfi að minnsta kosti tveggja ráðuneyta.

Talskona stofnunar sem fer með netöryggismál og kerfisinnviði (Cybersecurity and Infrastructure Security Agency) segir að unnið sé að rannsókn málsins í samstarfi stofnana á sviði öryggismála. CISA veiti ráðuneytunum sem um ræðir tæknilega aðstoð við að greina og upplýsa um málið. 

Samkvæmt Washington Post tengist málið árásum sem gerðar voru á netöryggisfyrirtækið Fire Eye í síðustu viku. Fyrirtækið greindi frá árásunum og sagði að hakkararnir hefðu stolið verkfærum sem notuð eru við að prófa tölvukerfi viðskiptavina. Árásirnar hafi verið afar fagmannlegar og sagði í tilkynningu frá FireEye að grunur léki á um að árásirnar væru á vegum erlends ríkis. 

AFP-fréttastofan vísar í bandaríska fjölmiðla um að FBI væri að rannsaka hóp hakkara sem starfar fyrir rússnesku leyniþjónustuna (SVR) og að brotin hafi staðið yfir í mánuði. Um er að ræða sama hóp hakkara sem gerðu árásir á tölvukerfi bandaríska ríkisins á meðan Barack Obama var forseti Bandaríkjanna. 

Sendiráð Rússlands í Bandaríkjunum sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi um að ekkert væri hæft í ásökunum um að Rússar kæmu að árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert