Lyfjastofnun Evrópu (EMA) mun veita leyfi fyrir bóluefni Pfizer-BioNTech á Þorláksmessu og væntanlega verður byrjað að bólusetja í Þýskalandi 26. desember. Þetta herma heimildir þýska blaðsins Bild og vísar blaðið í heimildarmenn úr framkvæmdastjórn ESB og innan þýsku ríkisstjórnarinnar.
Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, staðfestir þetta í samtali við Bild. Áður hafði EMA gefið út að ákvörðunin yrði tekin í síðasta lagi 29. desember. Þetta kemur fram í frétt Bild í dag. Um er að ræða bóluefni Pfizer-BioNTech sem komið í notkun í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.
„Þetta eru góðar fréttir fyrir allt Evrópusambandið,“ segir Sphan. Tekið skal fram að þetta hefur áhrif á fleiri ríki, til að mynda Ísland.
Eftir samþykkið verður farið að bólusetja eins fljótt og auðið er og segir Spahn of snemmt að nefna ákveðna dagsetningu í því sambandi. Eins fljótt og hægt er því þannig verður mögulegt að draga úr þjáningum og fækka dauðsföllum segir hann í samtali við Bild. Hann telur að bólusetning geti í síðasta lagi hafist 2-4 dögum eftir samþykki.
Þjóðverjar hafa tryggt sér 11-13 milljónir skammta af bóluefninu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Heimildir Reuters fréttastofunnar eru á sama veg, Lyfjastofnun Evrópu mun veita leyfið 23. desember. „Já leyfi EMA verður veitt 23. desember,“ segir heimild Reuters og vísar þar til leyfis stofnunarinnar til að hefja bólusetningar í ríkum ESB og EES með bóluefni Pfizer BioNTech.
EMA gaf það út fyrr í mánuðinum að niðurstaðan myndi liggja fyrir í síðasta lagi 29. desember hvað varðar bóluefni BioNTech-Pfizer og Moderna 12. janúar í síðasta lagi.
Hvorki EMA né BioNTech vildi staðfesta þetta í samtali við Reuters.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) á nú í viðræðum við Pfizer um að bóluefni fyrirtækisins verði með í bólusetningarátaki fyrir ríki á heimsvísu. Til þess að það verði hægt verður Pfizer að bjóða upp á bóluefni á viðráðanlegu verði fyrir fátækari ríki heims.
„Við vitum af grein Bild. Við erum enn að vinna með dagsetninguna 29. sem síðasta dag. Í augnablikinu hefur ekkert breyst þar,“ segir talskona EMA í samtali við AFP-fréttastofuna.
Vaxandi óþolinmæði Sphan fer ekki fram hjá neinum sem fylgir honum á Twitter. Á sunnudag ritaði hann nokkrar færslur þar varðandi bóluefnið og sagði að trúverðugleiki ESB væri í húfi þegar kæmi að viðbragðsflýti sambandsins.
Hann hefur hins vegar staðið fastur á þeirri skoðun sinni að Þýskaland ætti að fylgja öðrum ríkjum ESB hvað varðar leyfisveitingu í gegnum EMA. Með því væri tryggt að farið væri að reglum og fyllsta öryggis gætt.