Taka ákvörðun um markaðsleyfi 21. desember

Frá bólusetningu í Bandaríkjunum. Þar er fólk nú þegar bólusett …
Frá bólusetningu í Bandaríkjunum. Þar er fólk nú þegar bólusett með bóluefni Pfizer/BioNTech. AFP

Lyfjastofnun Evrópu gaf það út rétt í þessu að hún hafi flýtt fundi þar sem ákvörðun um leyfisveitingu vegna bóluefnis Pfizer/BioNTech verði tekin til 21. desember næstkomandi. Áður var fundurinn áætlaður 29. desember. Vegna þessa ættu bólusetningar í Evrópu að geta hafist fyrir lok árs.

Lyfjastofnunin sagði rétt í þessu að eftir að henni bárust frekari gögn um bóluefnið hafi verið tekin ákvörðun um að flýta fundinum til 21. desember og þar yrði tekin ákvörðun ef það verður mögulegt.

Ákvörðunin var tilkynnt eftir að þýsk stjórnvöld höfðu þrýst mjög á yf­ir­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins um að flýta samþykki nýs bólu­efn­is við kór­ónu­veirunni á sama tíma og nýj­um smit­um fjölg­ar hratt í Þýskalandi.

Bæði Bret­land og Banda­rík­in eru byrjuð að bólu­setja við Covid-19 með bóluefni Pfizer/BioNTech.

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, fagnaði ákvörðun Lyfjastofnunarinnar í dag og sagði að vegna hennar myndu bólusetningar líklega byrja fyrir lok árs. 

„Hver einasti dagur skiptir máli, við vinnum á fullum hraða til þess að samþykkja #COVID19 bóluefni sem eru örugg og verndandi,“ skrifaði hún á Twitter í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert