Vilja markaðsleyfi fyrir jól

Bóluefni Pfizer/BioNTEch.
Bóluefni Pfizer/BioNTEch. AFP

Þýsk yfirvöld þrýsta mjög á yfirstjórn Evrópusambandsins um að flýta samþykki nýs bóluefnis við kórónuveirunni á sama tíma og nýjum smitum fjölgar hratt í Þýskalandi en bæði Bretland og Bandaríkin eru byrjuð að bólusetja við Covid-19.

Markmiðið er að fá samþykki fyrir jól.“ segir heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, á fundi með blaðamönnum í morgun.  „Við viljum hefja bólusetningar fyrir árslok,“ bætti hann við en þetta er það sama og hann sagði í viðtali við þýska sjónvarpið í gærkvöldi. 

Fréttin var uppfærð eftir að Sphan lét þessi ummæli falla á fundi með blaðamönnum í dag

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og þýska heilbrigðisráðuneytið vilja að Lyfjastofnun Evrópu, European Medicines Agency (EMA), veiti markaðsleyfi sem fyrst og það verði gert í síðasta lagi á Þorláksmessu. Áður hafði EMA gefið út að ákvörðunin yrði tekin í síðasta lagi 29. desember. Þetta kemur fram í frétt Bild í dag. Um er að ræða bóluefni Pfizer-BioNTech sem komið í notkun í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. 

Það hversu hægt gengur að samþykkja bóluefnið veki upp spurningar um getu ESB til að grípa til aðgerða hefur Bild eftir heimildarmönnum.

Gremja stjórnvalda í Þýskalandi er hvöss og ekki síst vegna þess að BioNTech er þýskt fyrirtæki. Á morgun verður nánast öllu skellt í lás í Þýskalandi að nýju vegna fjölda nýrra Covid-19 smita. Meðal annars verður öllum verslunum öðrum en þeim sem selja nauðsynjavöru gert að loka sem og skólum.

Singapúr, Barein og Jórdanía hafa þegar veitt leyfi fyrir bóluefni Pfizer-BioNTech auk þeirra ríkja sem þegar eru byrjuð að bólusetja. 

Höfuðstöðvar BioNTech eru í þýsku borginni Mainz,.
Höfuðstöðvar BioNTech eru í þýsku borginni Mainz,. AFP

Leyfi fyrir jól og bólusetning á þessu ári

Spahn sagði í viðtali við ZDF sjónvarpsstöðina í gærkvöldi að markmið Þýskalands sé að veitt verði leyfi fyrir bóluefninu fyrir jól og að bólusetning hefjist á þessu ári.

Á sunnudag skrifaði hann nokkrar færslur á Twitter um málið og sagði meðal annars að EMA ætti að veita leyfið eins fljótt og auðið er.

„Allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir um BioNTech. Bretland og Bandaríkin hafa þegar veitt leyfi,“ skrifar Spahn á Twitter og bætir við að tiltrú á getu ESB til að bregðast við sé einnig í húfi. 

Christine Ahenberg-Dugnus, þingmaður FDP, gengur enn lengra og segir að það sé óásættanlegt að bóluefni sem sé framleitt í Þýskalandi sé ekki samþykkt og dreift fyrr en í janúar. 

Í síðustu viku greindi EMA frá því að stofnunin hefði orðið fyrir tölvuárás. Pfizer-BioNTech segir að skjöl tengd skráningu bóluefnisins hafi verið meðal þess sem hakkararnir komust inn í en árásin stóð yfir í tvær vikur.

Í morgun var greint frá því að 14.432 ný smit hafi verið staðfest í Þýskalandi síðasta sólarhringinn og að 500 hafi látist. Í síðustu viku voru smitin um 30 þúsund á einum degi. Vegna þessa var ákveðið að herða sóttvarnareglur til muna og gilda nýjar reglur til 10. janúar. 

Samband þýskra sjúkrahúsa (DKG) hefur einnig lýst áhyggjum af því hversu hægt gengur hjá EMA að veita leyfi fyrir bóluefninu. „Ég velti fyrir mér hvort við þurfum í alvöru að bíða til 29. desember eftir því að fá bóluefnið samþykkt,“ segir forseti sambandsins, Gerald Gass, í viðtali við RND sjónvarpsstöðina. 

Síðustu forvöð að fara í búðir við Alexanderplatz í Berlín …
Síðustu forvöð að fara í búðir við Alexanderplatz í Berlín fyrir jól. AFP

Í raun, samkvæmt teoríunni, gæti Þýskaland samþykkt að veita

leyfi fyrir bóluefninu í gegnum þýsku lyfjastofnunina en líkt og önnur ríki innan ESB og EES valdi Þýskaland að fara í gegnum EMA.  

Spahn sagði á mánudag að um leið og leyfið er veitt verði farið að  bólusetja og að í lok næsta sumars verði búið að bólusetja 60% íbúa Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert