Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ætlar að senda hóp alþjóðlegra sérfræðinga til Kína í næsta mánuði til að aðstoða við að rannsaka uppruna kórónuveirunnar.
„Ég get staðfest að þetta mun gerast í janúar,“ sagði Héðinn Halldórsson, talsmaður stofnunarinnar, við AFP, spurður út í fregnir um að sérfræðingateymi ætli að loksins til Kína í næsta mánuði.
Ári eftir að faraldurinn hófst hefur hann orðið yfir 1,6 milljónum manna að bana og smitað yfir 73 milljónir manna um allan heiminn. Spurningin um hvaðan veiran kom og hvernig hún barst frá dýrum yfir til manna er aftur á móti enn ráðgáta.
WHO hefur í marga mánuði unnið að því að senda hóp tíu alþjóðlegra sérfræðinga, þar á meðal faraldursfræðinga og sérfræðinga í heilsufari dýra, til Kína þar sem veiran kom fyrst fram í desember í fyrra.
Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna sendi hóp til Peking, höfuðborgar Kína, í júlí til að leggja grunninn að alþjóðlegri rannsókn. Þar til nú hefur verið óljóst hvenær stærri hópur myndi ferðast til Kína í rannsóknarskyni.
Vísindamenn töldu fyrst að veiran hafi borist frá dýrum til manna á kjötmarkaði með framandi dýr í borginni Wuhan þar sem veiran greindist fyrst. Núna telja sérfræðingar að veiran hafi hugsanlega ekki átt upptök sín þar, heldur hafi hún frekar sótt í sig veðrið þar.
Víða er talið að veiran hafi upprunalega komið úr leðurblökum, en ekki er vitað hvaða dýr flutti hana á milli leðurblaka og manna.