Fimmtungur mannkyns ekki bólusettur fyrr en 2022

Lyfsalinn Fetiya Omer í Seattle-borg heldur á bóluefni Pfizers. Myndin …
Lyfsalinn Fetiya Omer í Seattle-borg heldur á bóluefni Pfizers. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Samkvæmt nýrri rannsókn sem kynnt var í dag mun að minnsta kosti fimmtungur mannkyns ekki eiga kost á því að vera bólusettur gegn kórónuveirunni fyrr en árið 2022. Þá hafa ríkari þjóðir heims tekið frá meira en helming þess bóluefnis sem framleitt verður á næsta ári. 

Miklar vonir hafa verið bundnar við að væntanleg bóluefni geti bundið enda á kórónuveirufaraldurinn, en nú hafa rúmlega 1,6 milljónir manna látist af völdum veirunnar. Þá hafa ríki á borð við Bandaríkin, Bretland og Sameinuðu arabísku furstadæmin þegar hafið bólusetningu gegn veirunni og víst er að mikil spurn er eftir þeim skömmtum sem framleiddir verða á næstunni. 

Samkvæmt rannsókn sem unnin var við Johns Hopkins-læknaháskólann, hafa ríkari þjóðir heims, þar sem um 14% heimsbyggðarinnar búa, náð að tryggja sér rétt rúmlega helming allra bóluefnisskammta sem 13 helstu lyfjaframleiðendur heims hyggjast framleiða á næsta ári. Er því óttast að fátækari ríki heims muni verða útundan. 

Þá segir í rannsókninni að jafnvel þótt allir framleiðendurnir myndu framleiða örugg og skilvirk bóluefni, og að þeir mæti framleiðslumarkmiðum sínum, sé ljóst að a.m.k. fimmtungur mannkyns muni ekki hafa aðgang að neinu bóluefni fyrr en árið 2022. 

Þá sögðu höfundar rannsóknarinnar að afleiðingar þessa gætu haft áhrif á viðskipti og ferðalög milli ríkja, en hvort tveggja muni ekki komast í fyrra horf fyrr en aðgangur að bóluefnum verði almennur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert