Svipta Estóníu grafhelgi til að hefja rannsókn

Stafnhlera skipsins Estóníu lyft upp á yfirborðið. Hann losnaði í …
Stafnhlera skipsins Estóníu lyft upp á yfirborðið. Hann losnaði í óveðrinu með þeim afleiðingum að sjór flæddi inn í skipið. Nýjar uppgötvanir sýna hins vegar heljarstórt gat á skrokki skipsins og þykja gefa tilefni til frekari rannsókna. AFP

Rannsóknarnefnd sjóslysa í Svíþjóð hefur lagt til að rannsóknir verði hafnar að nýju á flaki farþegaskipsins Estóníu. Skipið sökk á leið sinni um Eystrasaltið frá Tallin til Stokkhólms í aftakaveðri árið 1994 og fórust 852. Er slysið næstmannskæðasta sjóslys í Evrópu á friðartímum, á eftir Titanic.

Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar, greindi frá þessum hugmyndum á blaðamannafundi í dag. Til þess þarf að breyta lögum en ólöglegt er samkvæmt sænskum lögum að raska ró svæðisins þar sem skipið, sem skilgreint er sem grafreitur.

Finnskir hermenn ferja lík farþega í land. Aðeins lítill hluti …
Finnskir hermenn ferja lík farþega í land. Aðeins lítill hluti þeirra sem létust voru fluttir í land en flestir hvíla í votri gröf. AFP

Tilefnið eru nýjar vísbendingar um tildrög slyssins sem fram komu í heimildarþáttaröðinni Estonia: Fyndet som ändrar allt (Uppgötvunin sem breytir öllu) á Discovery í haust. Í þáttunum er hulunni svipt af stærðarinnar gati á skrokki skipsins, sem ekki hafði komið fram í opinberri rannsóknarskýrslu frá árinu 1997. Opinberar skýringar eru að illa farinn stafnhleri skipsins hafi losnað í óveðrinu sem varð til þess að sjór flæddi óhrindrað inn.

„Tilgangur nýs mats er að fara yfir hvort þessar nýju upplýsingar um gatið gefi ástæðu til að endurmeta þær niðurstöður sem komist var að í skýrslunni árið 1997,“ segir John Ahlberk, formaður rannsóknarnefndarinnar. Innanríkisráðherrann gerir ráð fyrir að hægt verði að breyta lögum á fyrri hluta næsta árs og rannsóknin geti hafist í kjölfarið.

Samsæriskenningar hafa lengi verið uppi um tildrög slyssins og vangaveltur um hvort því hafi verið sökkt. Árið 2004 staðfestu stjórnvöld í Svíþjóð og Eistlandi að skipið hefði verið notað í hergagnaflutningi nokkrum vikum áður en það sökk.

Það gefur samsæriskenningarsmiðum vind í seglinn að skipið hafi aldrei verið híft upp af sjávarbotninum. Slíkar hugmyndir voru til skoðunar á sínum tíma, en eftir að það reyndist of tæknilega erfitt var ákveðið að lýsa svæðið í kringum skipsflakið alþjóðlegan grafreit.

Undirrituðu Svíar, Finnar, Eistar og fleiri þjóðir samkomulag um að svæðið yrði skilgreint sem grafreitur á hafi úti og er íbúum þeirra ríkja óheimilt að kafa niður að flakinu.

Minnisvarði um fórnarlömbin í Stokkhólmi.
Minnisvarði um fórnarlömbin í Stokkhólmi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert