ESB missti af bóluefnislestinni

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, var bjartsýnn um að bólusetning myndi …
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, var bjartsýnn um að bólusetning myndi ganga vel í Þýskalandi, en nú gæti hún dregist. AFP

Vegna seina­gangs og rangra ákv­arðana mun bólu­setn­ing ganga mun hæg­ar fyr­ir sig í ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins en gert var ráð fyr­ir og far­ald­ur­inn ráða leng­ur ríkj­um en ella. Of lítið var keypt af bólu­efn­um og sló ESB meira að segja hend­inni á móti mörg hundruð millj­ón­um skammta frá Bi­ontech og Moderna. Þetta kem­ur fram í nýj­asta tölu­blaði tíma­rits­ins Der Spieg­el, sem kom út í gær, og seg­ir þar að fyr­ir vikið muni Þýska­land ekki eiga nóg af bólu­efn­um til að binda enda á kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn held­ur muni hann drag­ast fram á næsta vet­ur.

Grein­in hefst á lýs­ingu á mynd­um von­ar: Hjúkr­un­ar­fræðing­ar fá bólu­setn­ingu, bretti með bólu­efn­um eru flutt til allra lands­horna með sér­stöku flugi, borg­ar­stjór­ar tala um upp­hafið á end­in­um á heims­far­aldr­in­um. For­set­inn býr landið und­ir betri tíma. Þess­ar mynd­ir komi frá Banda­ríkj­un­um.

Í Þýskalandi megi hins veg­ar sjá aðrar mynd­ir: Mannauðar versl­un­ar­göt­ur, slag­brand­ar fyr­ir veit­inga­stöðum og rík­is­stjórn­in býr þjóð sína und­ir langa, dimma daga.

Trump lít­ur bet­ur út en ESB

„Mun­ur­inn fer ekki fram­hjá nein­um,“ seg­ir í blaðinu. „Ann­ars veg­ar er hin meinta van­hæfa rík­is­stjórn Trumps sem bara á næstu tveim­ur, þrem­ur vik­um ætl­ar að sjá 20 millj­ón­um Banda­ríkja­manna fyr­ir bólu­efni. Í lok mars á að vera búið að bólu­setja rúm­lega hundrað millj­ón Banda­ríkja­menn tvisvar. Hins veg­ar eru hinir meintu vel und­ir­búnu Evr­ópu­bú­ar, sem áfram bíða eft­ir bólu­efn­inu, sem var þróað í Þýskalandi. Og vita ekki ná­kvæm­lega hvað þeir fá mikið af bólu­efni á næstu mánuðum.“

Í Spieg­el er rakið að heil­brigðisráðherra Þýska­lands, Jens Spa­hn, hafi greint frá því að í upp­hafi muni aðeins 400 þúsund skammt­ar koma í hlut Þýska­lands og í mars á milli 11 og 13 millj­ón­ir. Það sé aðeins brot af því, sem Banda­ríkja­menn fái. Nú hafi þýsk stjórn­völd áttað sig á því að póli­tískt gæti þetta orðið af­drifa­ríkt og því sé nú verið að reyna að bæta stöðuna. Þetta kall­ast á við frétt­ir héðan frá Íslandi um að minna verði af bólu­efni en talað hafi verið um í upp­hafi og það muni taka lengri tíma að bólu­setja það marga að hjarðónæmi ná­ist en vakt­ar höfðu verið von­ir um.

Heilbrigðisstarfsmaður í Nevada í Bandaríkjunum fær fyrsta skammtinn af bóluefninu …
Heil­brigðis­starfsmaður í Nevada í Banda­ríkj­un­um fær fyrsta skammt­inn af bólu­efn­inu frá Bi­ontech 17. des­em­ber. AFP

Nú ætl­ar lyfja­eft­ir­lit Evr­ópu­sam­bands­ins, EMA, að hafa hraðann á eft­ir allt sam­an og leyfa bólu­efnið viku fyrr en ella þannig að bólu­setn­ing um hefjast 27. des­em­ber í Evr­ópu. Verið er að semja við fram­leiðend­ur um meiri birgðir. Á fimmtu­dag ræddi Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, meira að segja við Özlem Türeci og Ugur Sa­hin, forkólfa Bi­ontech, og var hluta sam­tals­ins streymt beint. Að mati Spieg­el geta skila­boðin ekki verið skýr­ari: Yf­ir­valdið hafi tekið bólu­setn­ing­ar í sín­ar hend­ur.

Sein­ir að átta sig

Menn hafi hins veg­ar verið sein­ir að átta sig. Mánuðum sam­an hafi verið fyr­ir­sjá­an­legt að önn­ur lönd myndu ná sér í meira bólu­efni og geta haf­ist fyrr handa við að bólu­setja og þannig ráðist af meira krafti gegn heims­far­aldr­in­um.

Í Berlín og Brus­sel hafi aft­ur á móti lítið gerst lengi vel. Oft hafi það verið stutt með sjálf­birg­ings­leg­um rök­um: Í Evr­ópu væri ein­fald­lega betra eft­ir­lit með lyfj­um og ná­kvæm­ara, næg­ar birgðir yrðu af bólu­efni vegna góðs skipu­lags. Jens Spa­hn heil­brigðisráðherra sagði að fyr­ir sum­arið yrði hægt að ljúka bólu­setn­ingu 60% þjóðar­inn­ar. Þessi bjart­sýni hafi ekki verið í sam­ræmi við raun­veru­leik­ann.

Seina­gang­ur evr­ópska lyfja­eft­ir­lits­ins í að leyfa bólu­efn­in frá Bi­ontech og Pfizer virðist þó ekki vera stóra vanda­málið. Að óbreyttu sé út­lit fyr­ir að ekki verði búið að ná tök­um á far­aldr­in­um fyr­ir næsta haust. Evr­ópu­sam­bandið hafi auljós­lega keypt of lítið af bólu­efn­um, of seint og að hluta af röng­um fram­leiðend­um. Í þokka­bót virðist ESB hafa hafnað mörg hundruð millj­ón­um skammta af bólu­efni sem nú vanti.

Næsta haust eins og þetta

Fyr­ir vikið sé þýsk­um stjórn­völd­um vandi á hönd­um. Án bólu­setn­ing­ar verði veir­an ekki stöðvuð og haustið og vet­ur­inn 2021 gætu því orðið með svipuðum hætti og á þessu ári, mik­ill fjöldi smita, stíf­ar nálg­un­ar­regl­ur og lok­an­ir. Eina ráðið sé að næla í um­frambirgðir af bólu­efni.

Ráðamenn í Berlín hafi hins veg­ar skil­yrðis­laust skuld­bundið sig til sam­stöðu við ESB. Áhrifa­ríku og öfl­ugu þjóðirn­ar eigi ekki að fara sínu fram, held­ur eigi litlu rík­in á borð, til dæm­is Rúm­en­ía og Slóvakía, að sitja við sama borð. Með því að skera sig úr og kaupa meira af bólu­efni en all­ir hinir yrði sam­stöðunni í Evr­ópu stefnt í bráða hættu og hún væri veik fyr­ir.

Der Spieg­el bend­ir á að um leið beri þýsk­um yf­ir­völd­um hins veg­ar skylda til að veita eig­in borg­ur­um sem mesta vernd. Vís­inda­menn telji að bólu­setja þurfi á milli 60 og 70% íbúa Þýska­lands til að stöðva veiruna. Til þess þurfi á milli 100 og 120 millj­ón­ir skammta vegna þess að með einni und­an­tekn­ingu þurfi tvo skammta á mann til að bólu­efnið virki.

Evr­ópu­sam­bandið hef­ur tryggt sér 1,3 millj­arða skammta frá sex fram­leiðend­um. Miðað við fólks­fjölda eigi 18,6% af því að koma í hlut Þjóðverja eða 250 millj­ón­ir skammta. Sú tala blekki hins veg­ar. Nú sé aðeins tryggt bólu­efni frá Bi­ontech/​Pfizer, sem er þýsk-banda­rískt sam­starf, og banda­ríska líf­tæknifyr­ir­tæk­inu Moderna.

Bólu­efni Bi­ontech/​Pfizer verður leyft 21. des­em­ber. Þjóðverj­ar munu eins og staðan er nú fá um 45 millj­ón­ir skammta á fyrstu sex mánuðum næsta árs frá þeim. Bólu­efni Moderna verður vænt­an­lega leyft 6. janú­ar og gætu af­hent um 15 millj­ón­ir skammta. Það sé of lítið, seg­ir Der Spieg­el.

Frek­ari birgðir ættu að koma frá fjór­um öðrum fram­leiðend­um, sem ESB hef­ur samið við. En alls ekki sé víst hvenær eða hvort af því muni verða og í það minnsta sé ekki við neinu magni sem máli skipt­ir að bú­ast fyr­ir sum­arið.

Bresk-sænski fram­leiðand­inn AstraZeneca hafi þurft að gera hlé á rann­sókn á bólu­efni þegar tveir þátt­tak­end­ur urðu mátt­laus­ir í hönd­um og fót­um, en svo kom í ljós að ástæðan var ekki bólu­efnið. Þá var gagn­rýnt þegar AstraZeneca sló ólík­um niður­stöðum tveggja rann­sókna sam­an.  Þar held­ur þró­un­ar­vinn­an áfram. Banda­rísk heil­brigðis­yf­ir­völd hafa gefið til kynna að bólu­efni AstraZeneca verði ekki samþykkt fyr­ir sum­arið, ef það verði samþykkt. Virkni þess verður lík­lega á milli 60 og 70% og vitn­ar Der Spieg­el í orð Ant­honys Fauc­is, sótt­varna­lækn­is Banda­ríkj­anna, sem spurði: „Hverj­um vill maður gefa svona bólu­efni þegar um leið eru til tvö önn­ur sem eru með 95% virkni?“

Í grein Der Spieg­el kem­ur einnig fram að franski fram­leiðand­inn Zanofi sjái nú ekki fram á að fá leyfi fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2021. ekki er reiknað með Curevac-bólu­efn­inu frá Þýskalandi fyrr en í sum­ar. Aðeins John­son&John­son gæti verið til­bú­inn með bólu­efni í mars.

Þetta komi sér vita­skuld ekki aðeins illa fyr­ir ESB. aðrir hafi einnig reitt sig á að Sanofi yrði fyrr á ferðinn, þar á meðal Banda­rík­in. Hjá Evr­ópu­sam­band­inu hafi öfl­un bólu­efna hins veg­ar gengið stirðlega frá upp­hafi.

Bólu­setn­ing­ar­banda­lag út af hæga­gangi ESB

Í vor var myndað bólu­setn­ing­ar­banda­lag Þýska­lands, Frakk­lands, Ítal­íu og Hol­lands, sem sam­an gerðu samn­ing um rúm­lega 400 millj­ón skammta bólu­efn­is við AstraZeneca. Þessi samn­ing­ur átti sam­kvæmt Der Spieg­el fyrst og fremst að vera þrýst­ing­ur á ESB vegna þess að lítið gerðist í Brus­sel. „Mörg lönd hafa þegar tryggt sér bólu­efni, en það hef­ur ekki enn verið gert í Evr­ópu,“ sagði Jens Spa­hn þá.

Í júní lagði fram­kvæmda­stjórn ESB fram evr­ópska bólu­setn­ing­ar­stefnu þar sem kveðið var á um „rétt­lát­an og jafn­an aðgang allra í ESB“. Tryggja átti næg­ar birgðir fyr­ir aðild­ar­rík­in með því að skuld­binda sig til að taka við ákveðnu magni bólu­efna af fram­leiðend­um.

Der Spieg­el bend­ir á að heil­brigðisþjón­usta sé verk­efni aðild­ar­ríkj­anna í ESB, en út­veg­un bólu­efna með Brus­sel í bíl­stjóra­sæt­inu hafi átt að vera tákn fyr­ir sam­stöðuna inn­an sam­bands­ins. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Út af seinagangi …
Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins. Út af seina­gangi gæti kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn dreg­ist á lang­inn í lönd­um ESB. AFP

Í ág­úst og októ­ber gerði ESB fyrstu samn­ing­ana. Þeir voru við Sanofi, John­son&John­son og AstraZeneca. Der Spieg­el seg­ir að þá þegar hafi vakið at­hygli að eng­in samn­ing­ur var gerður við fyr­ir­tæk­in með bólu­efn­in, sem gáfu mest fyri­heit. Bi­ontech og Moderna höfðu í júlí verið með niður­stöður, sem lofuðu mjög góðu og virt­ust vera á beinni braut.

Pirr­ing­ur og reiði bak við tjöld­in í Berlín

Seg­ir tíma­ritið að þetta hafi vakið mikla reiði og pirr­ing bak við tjöld­in á stjórn­ar­heim­il­inu í Berlín. Ekki minnkaði gremj­an þegar fyr­ir­tæk­in greindu frá því í nóv­em­ber að virkni bólu­efn­anna frá þeim væri allt að 95%. Fram­leiðend­urn­ir höfðu alltaf tekið skýrt fram hvernig bólu­efn­inu yrði dreift. Ann­ars veg­ar yrði farið eft­ir íbúa­fjölda og hins veg­ar hvenær samn­ing­ar voru gerðir.

Banda­ríkja­menn tryggðu sér þegar í júlí 600 millj­ón skammta frá Bi­ontech og 500 millj­ón skammta frá Moderna. Jap­an­ar, Kan­ada­menn, Hong Kong og fleiri gengu einnig frá samn­ing­um í sum­ar og haust. En ESB hélt að sér hönd­um og pantaði ekki fyrr en í nóv­em­ber og þá mun minna en hægt hefði verið. ESB samdi um 200 millj­ón skammta frá Bi­ontech með mögu­leika á að fá meira síðar. Der Spieg­el hef­ur fyr­ir satt að Bi­ontech hefði getað látið ESB fá fleiri skammta og boðið sam­band­inu allt að 500 þúsund skammta strax í fyrstu um­ferð. Því hafi fram­kvæmda­stjórn ESB hins veg­ar hafnað. Stella Kyriaki­des, sem fer með heil­brigðismál í fram­kvæmda­stjórn­inni, hef­ur ekki viljað segja hvers vegna.

Mátti ekki kaupa meira af þýsku fyr­ir­tæki en frönsku?

Der Spieg­el spyr hvers vegna hafi aðeins verið gengið frá samn­ing­um um 300 millj­ón­ir skammta af bólu­efni, sem ljóst var að hefði 95% virkni sam­kvæmt rann­sókn­um. Blaðið seg­ir að þýski heil­brigðisráðherr­ann hafi kraf­ist þess að meira yrði keypt, en mætt mót­stöðu. Ein ástæðan hafi verið að 300 millj­ón skammt­ar hefðu verið pantaðir frá franska fyr­ir­tæk­inu Sanofi. „Þess vegna mátti ekki kaupa meira af þýsku fyr­ir­tæki,“ sagði heim­ildamaður, sem er þaul­kunn­ug­ur samn­inga­ferl­inu, við Der Spieg­el. Þessu mót­mæl­ir reynd­ar fram­kvæmda­stjórn­in, frönsk stjórn­völd hafi ekki viljað vernda Sanofi.

Sama var uppi á ten­ingn­um í samn­ing­um við Moderna. Fyr­ir­tækið hefði getað af­hent 300 millj­ón­ir skammta, en ESB vildi aðeins 80 millj­ón­ir.

Nú er að koma í ljós að Sanofi er í vand­ræðum með þróun síns bólu­efn­is. Efnið sem það er að þróa sýndi verri virkni en von­ir stóðu til í öðrum fasa rann­sókn­ar­ferl­is­ins, sér­stak­lega hjá öldruðum. Bólu­efn­is Sanof­is sé því í fyrsta lagi að vænta í lok árs.

Í Der Spieg­el seg­ir að þetta sé óheppni, en um leið ástæðan fyr­ir því að skyn­sam­legt sé að kaupa sem mest af þeim sem þegar hafi lokið rann­sókn­um með góðum ár­angri frek­ar en að von­ast til þess að öll­um hinum tak­ist ein­hvern veg­inn líka að ná alla leið.

Í tíma­rit­inu kem­ur fram gagn­rýni á fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins og er haft orð á því að þar sé ekki að finna vott af sjálfs­gagn­rýni. Í Berlín sé hins veg­ar nú litið svo á að því fylgi of mik­il áhætta að hafa þessi mál áfram í hönd­um fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar í Brus­sel. Fari svo að of lítið verði af bólu­efni til að stöðva far­ald­ur­inn í Þýskalandi muni al­menn­ing­ur spyrja sig hvers vegna stjórn­völd í Berlín hafi ekki tekið mál sem snýst um líf eða dauða í sín­ar hend­ur. Því sé nú unnið að því bak við tjöld­in að panta meira hjá Bi­ontech og Moderna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert