Í dag er mánuður þar til Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna, en Donald Trump einblínir enn á þann ólíklega möguleika að kosningunum verði snúið við, honum í hag.
Samkvæmt AFP-fréttaveitunni ríkir nú mikil reiði í höfuðborginni Washington D.C eftir að fregnir bárust af því að ráðgjafar forsetans fráfarandi hafi velt uppi hugmyndum um beitingu herlaga í landinu, með það að markmiði að tryggja Trump sigurinn.
Þrátt fyrir að lítið hafi borið á Trump opinberlega undanfarið hélt hann fund í Hvíta húsinu á föstudag þar sem ræddar voru leiðir hans til að halda embættinu, tæpri viku eftir að kjörmenn ríkjanna staðfestu sigur Bidens með 302 atkvæðum gegn 232 atkvæðum Trumps.
Á þeim fundi eiga einhverjir ráðgjafar forsetans að hafa stungið upp á því að virkja herinn til stuðnings honum, áður en sú hugmynd var skotin niður.
Þá á Trump einnig að hafa íhugað að gera atkvæðavélarnar, sem notaðar voru við kosningarnar, upptækar, að því er segir í frétt AFP.