Neyðist til að gera grein fyrir umfangsmiklum auðæfum

Harrods er ein þekktasta verslun Lundúna og víða um heim.
Harrods er ein þekktasta verslun Lundúna og víða um heim. mbl.is/Wikipedia

Hæstiréttur Bretlands hafnaði í gær beiðni konu sem eyddi 16 milljón sterlingspunda, því sem nemur um 2,8 milljörðum íslenskra króna, í lúxusversluninni Harrods, um að snúa við úrskurði þess efnis að ákvæðum laga um óútskýrð auðæfi verði beitt í fyrsta sinn í Bretlandi. 

Zamira Hajyeva, sem er eiginkona fyrrum bankastarfsmanns sem situr nú á bak við lás og slá í heimalandi þeirra Aserbaídsjan, á nú á hættu að gert verði eignaarnám í 12 milljón punda heimili hennar í Lundúnum auk golfvallar í eigu hennar. Til að koma í veg fyrir það verðir Hajyeva að gera grein fyrir auðæfum sínum. 

Eiginmaður Hajyeve var fangelsaður fyrir að draga að sér milljónir punda frá bankanum þar sem hann starfaði.

Fyrirtæki hjónanna í skattaskjóli fara með eignarhald yfir fasteign Hajyeva og golfvelli, sem saman voru virði um 22 milljónir punda árið 2018 þegar málaferli gegn henni hófust, því sem jafngildir tæpum fjórum milljörðum króna. Þá er Hajyeva sögð hafa eytt rúmlega 16 milljónum punda, því sem jafngilti tæpum þremur milljörðum króna, í lúxusvöruversluninni Harrods síðasta áratuginn. 

Samkvæmt lögum um óútskýrð auðæfi geta stjórnvöld gert upptækar eigur einstaklinga sem ekki geta sannað að þeir hafi komist yfir auðæfi sín á löglegan hátt. Þannig þarf ekki að vera sannað að viðkomandi hafi gerst sekur um glæp til að eigur hans verði gerðar upptækar. 

Hajyeva hefur ekki verið ákærð fyrir glæp í Bretlandi. Áfrýjun hennar fyrir Hæstarétt Bretlands var vísað frá fyrr í dag og verður málið því ekki tekið til efnislegrar umfjöllunar. Hajyeva hefur þar með reynt allar leiðar mögulegar til að koma í veg fyrir að lögum um óútskýrð auðæfi verði beitt og þarf hún því að gera grein fyrir þeim fyrir stjórnvöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert