Risasamningur við Pfizer innan seilingar

Bóluefni Pfizer var fyrst til þess að fá leyfi og …
Bóluefni Pfizer var fyrst til þess að fá leyfi og komast í notkun. AFP

Almenn bólusetning við kórónuveirunni er enn ekki hafin á Íslandi eða í löndum Evrópusambandsins, en á sama tíma hafa meira en 650.000 Bandaríkjamenn og liðlega 250.000 Bretar verið bólusettir. Bandarísk stjórnvöld eru við það að gera stóreflis samning við Pfizer til þess að geta fyrr bólusett alla þá sem það vilja.

Bandarísk stjórnvöld gera ráð fyrir að í upphafi mars verði búið að bólusetja 100 milljónir manna, tæplega þriðjung landsmanna. Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur tryggt sér 300 milljónir bóluefnisskammta út fyrri helming ársins, en vill meira, svo unnt sé að bólusetja um 70% þjóðarinnar, en með því er talið að hjarðónæmi myndist og hefti frekari smit veirunnar.

Til þess að geta það er Bandaríkjastjórn við það að gera tröllaukinn samning við Pfizer um kaup á 100 milljónir skömmtum í viðbót á fyrri hluta ársins, en þá mun hún alls hafa nægt bóluefni til þess að bólusetja 260 milljónir manna. Þar er í bígerð að bólsetja alla þá sem það kjósa, yfir 16 ára aldri.

Anthony Fauci.
Anthony Fauci. AFP

Anthony Fauci, fremsti sérfræðingur Bandaríkjanna á þessu sviði, telur að Bandaríkin muni þannig ná hjarðofnæmi síðla vors eða snemmsumars.

Það er mörgum mánuðum fyrr en menn gera sér vonir um slíkan árangur á Íslandi eða í Evrópu. Íslensk stjórnvöld hafa raunar gert ýmsa samninga um bóluefni, en hins vegar er allt óljósara um afhendingu. Stærsti samningurinn, sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í gær, er um bóluefni Janssen, en þróun þess er ekki enn komin í þriðja fasa, svo óvíst er hvenær það fær leyfi og kemst í notkun.

Auk bóluefnisins frá Pfizer, sem fékk markaðsleyfi á Íslandi í fyrradag, hafa Bandaríkjamenn gefið út leyfi fyrir bóluefni Moderna og gert samning um 200 milljónir skammta þaðan. Gert er ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu gefi út leyfi fyrir Moderna á þrettándanum, 6. janúar.

Bóluefni Pfizer varð fyrst í notkun, en það er bæði vandasamt í framleiðslu, geymslu og flutningum. Auk þess hefur Pfizer samið um afhendingu hundraða milljóna skammta víða um heim. Fyrirtækið hefur því viljað fara varlega í samningum við Bandaríkjastjórn, aðallega vegna þess að það taldi ekki tryggt að það hefði aðgang að nægum hráefnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert