Dýrkeypt „gleðitíðindi“

Bretar ganga endanlega úr Evrópusambandinu um áramót.
Bretar ganga endanlega úr Evrópusambandinu um áramót. AFP

Blekið var vart þornað á samningi Breta og Evrópusambandsins í gær þegar Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, tilkynnti að „klukkan tifaði“ ekki lengur í samningaviðræðunum. Það er að segja sjálf prentsvertan á pappírunum var vart þornuð, enda hefur undirskriftarpennunum ekki enn verið beitt til að staðfesta samninginn.

Eins og segir í umfjöllun BBC hefði fólk þurft að vera hálfsofandi, eða að minnsta kosti komið hálfa leið niður á flöskubotn freyðivíns-, eggjapúns- eða jólaglöggsflöskunnar, til þess að láta þann mun framhjá sér fara sem var á fasi Barniers annars vegar, og Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, hins vegar í gær.

Gleðitíðindi

Johnson sagði sigurreifur í ræðu sinni í Downing-stræti 10 í gær að hann hefði útbúið snemmbúna jólagjöf handa öllum þeim sem vantaði eitthvað að lesa eftir jólamatinn: „… og hér er hún,“ sagði hann og hélt á 34 blaðsíðna langri samantekt um nýsamþykktan Brexit-samninginn. „… tíðindi, gleðitíðindi, sem færa mikla hamingju vegna þess að þetta er samningur,“ bætti hann við.

„Við höfum tekið aftur stjórn yfir eigin lagasetningu og eigin örlögum,“ sagði Johnson áður en hann áréttaði að Bretland og Evrópa yrðu alltaf tengd tilfinninga-, menningar-, sögu- og landfræðilegum böndum. Í augum Johnsons mun 1. janúar næstkomandi, þegar Bretar ganga endanlega úr ESB, marka endurfæðingu þjóðar hans.

Boris Johnson var að vonum ánægður í gær.
Boris Johnson var að vonum ánægður í gær. AFP

„Klukkan tifar ekki lengur“

Það kvað hins vegar við allt annan tón hjá Michel Barnier sem flutti þungbúið ávarp eftir að samkomulag náðist í gær þegar hann lét hin fleygu og fyrrnefndu orð falla: „Klukkan tifar ekki lengur.“ Markmið ESB hefur verið að verja hagsmuni aðildarríkja sambandsins og reyna eftir fremsta megni að gera ekki útgöngu Breta að einhverju fordæmi fyrir aðrar þjóðir sem horfa hýru auga til útgöngu úr ESB.

Þá sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að samningurinn væri sanngjarn og gætti jafnræðis. Nú væri mál að horfa til framtíðar, Bretar væru enn traustur bakhjarl.

Þannig er haft eftir Evrópumálaráðherra Finnlands, Tytti Tuppurainen, að samningaviðræður um Brexit hafi verið æfing í skaðaminnkun af hálfu allra aðila. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði að rétt hefði verið hjá ESB að halda samstöðu meðal aðildarríkja síðan niðurstöður Brexit-kosninganna lágu fyrir árið 2016. Hann sagði aðildarríki ESB nú geta horft bjartsýn fram á veginn.

Michel Barnier.
Michel Barnier. AFP

Samþykktir vantar

Þrátt fyrir að samkomulag hafi náðst í gær er umræðum um það hvergi nærri lokið. Samningurinn hefur enn ekki verið undirritaður, til þess þarf samþykki breska þingsins og þingmenn eru ekki þeir einu sem verða nú að grandskoða ákvæði samningsins. Eins og fréttakona BBC orðar það: „Við skulum hugsa til þeirra 27 sendiherra aðildarríkja ESB í Brussel, sem nú er verið að draga á fund Michels Barniers, á sjálfan jóladag, til þess að ræða samninginn fram og til baka.“

Hvert einasta aðildarríki ESB þarf, rétt eins og breska þingið, að samþykkja samninginn fyrir árslok. Hvert aðildarríki hefur hreint neitunarvald en ekki þykir líklegt að nokkurt ríki beiti því.

Þúsund blaðsíður af neðanmálsgreinum

Samningurinn sem náðst hefur samkomulag um er engin smásmíði, um 1.500 blaðsíður (þar af um 1.000 blaðsíður af engu nema neðanmálsgreinum). Hann kveður á um tollfrjálsan flutning varnings yfir Ermarsundið, en þó ekki frjálsan flutning fólks milli ESB og Bretlands.

Verslunareigendur jafnt sem neytendur geta andað léttar, hvort sem þeir eru Brexit-sinnar eða ekki, vegna þess að samningurinn er talinn koma í veg fyrir gríðarlangar raðir á landamærum Breta og ESB, sem til hefðu komið vegna áður óþekkts flækjustigs við landamæraeftirlit.

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, barðist gegn Brexit en segir flokk sinn munu kjósa með samningum í neðri deild breska þingsins. Þá segir hann einnig að valið standi á milli þessa samnings eða útgöngu án samnings. „Samningurinn tryggir ekki að staðinn verði vörður um atvinnu í landinu,“ er haft eftir Starmer.

Nicola Sturgeon í skoska þinginu.
Nicola Sturgeon í skoska þinginu. AFP

Pyrrosarsigur

Þrátt fyrir að Boris Johnson hrósi sigri og fagni eflaust því að leiðtogi Verkamannaflokksins tali ekki gegn samningum um Brexit er ljóst að Bretar eru að gefa eftir ansi margt. Til að mynda munu aðildarríki ESB ennþá hafa aðgang að stórum hluta breskrar efnahagslögsögu og því geta evrópsk skip ennþá róið til fiskjar við strendur Bretlands.

Það munu þau þó aðeins geta í fimm og hálft ár, eftir það munu árlega fara fram samningaviðræður um hvernig sambandi Breta og ESB um sjávarútveg skuli háttað. Upphaflega vildi ESB fá að veiða innan lögsögu Breta í 14 ár og halda aftur af 85% kvóta sínum. Svo fór að ESB fær að veiða 25% af sínum upprunalega kvóta innan breskrar lögsögu þar til um mitt ár 2026, þá taka við fyrrnefndar samningaviðræður.

Barrie Deas, formaður regnhlífarsamtaka stéttarfélaga fiskveiðimanna í Bretlandi, sagði að það yrði ansi mikið um reiða og vonsvikna fiskveiðimenn í kvöld, eftir að samningurinn var í höfn.

Biðraðir við Dover í Bretlandi, rétt við landamæri Bretlands og …
Biðraðir við Dover í Bretlandi, rétt við landamæri Bretlands og ESB. Þessu ástandi hefur að miklu leyti verið afstýrt með nýjum fríverslunarsamningi. AFP

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnar Skotlands, sagði einnig að breskum sjávarútvegi hefði verið gefin hönd sem erfitt yrði að spila úr. Fyrsti ráðherra heimstjórnar Wales, Mark Drakeford, tók í sama streng og sagði að samningurinn væri vissulega betri en ekkert en þó ekki það sem Wales-verjum var lofað.

Þá er einnig ljóst að námsmenn í Bretlandi geta ekki farið í skiptinám á vegum Erasmus eins og áður hefur verið, þó að stúdentum frá Norður-Írlandi undanskildum. Íslenskir stúdentar hafa til dæmis getað farið í skiptinám á vegum Erasmus til landa í Evrópu, Bretlands þar með talið. Það verður þó ekki hægt eftir að Brexti raungerist um áramót, eftir fjögurra og hálfs árs bið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert