Fimm þúsund vörubílstjórar á Englandi neyðast nú til að eyða öllum jóladeginum í trukkum sínum, eftir að nýjar landamærareglur sem gera kórónuveirusýnatöku að skilyrði mynduðu gríðarlegar stíflur út úr landinu.
Bílstjórarnir, sem eru á leiðinni til Frakklands yfir Ermarsund með varning sinn, eru fastir í Kent á Englandi þar sem forsenda þess að þeim verði hleypt úr landi er neikvæð niðurstaða úr einkennasýnatöku, en frönsk yfirvöld lokuðu landamærum sínum við Bretland að hluta eftir að fréttir bárust af nýju, lítt þekktu afbrigði kórónuveirunnar þar í landi.
Það afbrigði er sagt vera allt að 70% meira smitandi en þau sem hingað til hafa valdið faraldrinum, og hafa íslensk yfirvöld t.a.m. bannað ferðamönnum frá Bretlandi að ferðast hingað til lands eftir áramót.
Sumir vörubílstjóranna í Kent hafa þegar verið fastir þar í heila viku, en breska ríkisstjórnin hefur séð þeim fyrir mat og drykk í biðinni, og hafa tugir kamra verið settir upp á svæðinu.
Af þeim 2.367 sýnum sem tekin hafa verið á vörubílstjórum við landamærin hafa einungis þrjú verið jákvæð fyrir kórónuveirusmiti.