Nýja afbrigði veirunnar komið til Frakklands

Afbrigðið hefur greinst í Frakklandi. Undanfarna daga hafa þúsundir flutningabílstjóra …
Afbrigðið hefur greinst í Frakklandi. Undanfarna daga hafa þúsundir flutningabílstjóra verið fastir á landamærunum á milli Frakklands og Bretlands vegna hertra sóttvarnaráðstafana. AFP

Hið nýja afbrigði kórónuveirunnar sem upphaflega kom upp í Englandi er nú komið fram í Frakklandi. Afbrigðið greindist fyrst nokkrum dögum fyrir jól í Englandi og gefa fyrstu gögn til kynna að nýi stofninn geti verið allt að 70% meira smitandi en þeir stofnar sem hingað til hafa valdið faraldrinum.

Tók fjöldi Evrópuríkja upp á því að loka fyrir ferðalög frá Bretlandi í kjölfarið, meðal annars Frakkland. Á miðvikudaginn ákváðu frönsk yfirvöld þó að opna aftur fyrir umferð og ferðalög, en þó með takmörkunum.

Kröfðust frönsk stjórnvöld meðal annars neikvæðs sýnis frá flutningabílstjórum sem voru á leið með vörur milli landanna. Þurftu um fimm þúsund vörubílstjórar að bíða í bílum sínum við borgina Kent á Englandi yfir jólahátíðina meðan beðið var eftir niðurstöðu sýnatöku.

Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi hafa staðfest að sá sem greindist með nýja afbrigðið hafi farið í sýnatöku 21. desember. Er um að ræða franskan ríkisborgara sem er búsettur í Bretlandi.

Staðfest hefur verið að einn hafi greinst með nýja afbrigðið á landamærum Íslands á síðustu dögum. Þá hafa meðal annars Danmörk, Ástralía, Holland og Japan staðfest tilfelli nýja afbrigðisins.

Einn af stofn­end­um Bi­oNTech, sem hefur framleitt bóluefni við kórónuveirunni með Pfizer, hefur sagt að „mjög lík­legt“ sé að bólu­efni lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins virki gegn stökk­breyttu af­brigði veirunn­ar, en ef nauðsyn krefði væri hægt að breyta bóluefninu á um sex vikum til að takast á við nýja afbrigðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert