Hið nýja afbrigði kórónuveirunnar sem upphaflega kom upp í Englandi er nú komið fram í Frakklandi. Afbrigðið greindist fyrst nokkrum dögum fyrir jól í Englandi og gefa fyrstu gögn til kynna að nýi stofninn geti verið allt að 70% meira smitandi en þeir stofnar sem hingað til hafa valdið faraldrinum.
Tók fjöldi Evrópuríkja upp á því að loka fyrir ferðalög frá Bretlandi í kjölfarið, meðal annars Frakkland. Á miðvikudaginn ákváðu frönsk yfirvöld þó að opna aftur fyrir umferð og ferðalög, en þó með takmörkunum.
Kröfðust frönsk stjórnvöld meðal annars neikvæðs sýnis frá flutningabílstjórum sem voru á leið með vörur milli landanna. Þurftu um fimm þúsund vörubílstjórar að bíða í bílum sínum við borgina Kent á Englandi yfir jólahátíðina meðan beðið var eftir niðurstöðu sýnatöku.
Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi hafa staðfest að sá sem greindist með nýja afbrigðið hafi farið í sýnatöku 21. desember. Er um að ræða franskan ríkisborgara sem er búsettur í Bretlandi.
Staðfest hefur verið að einn hafi greinst með nýja afbrigðið á landamærum Íslands á síðustu dögum. Þá hafa meðal annars Danmörk, Ástralía, Holland og Japan staðfest tilfelli nýja afbrigðisins.
Einn af stofnendum BioNTech, sem hefur framleitt bóluefni við kórónuveirunni með Pfizer, hefur sagt að „mjög líklegt“ sé að bóluefni lyfjafyrirtækisins virki gegn stökkbreyttu afbrigði veirunnar, en ef nauðsyn krefði væri hægt að breyta bóluefninu á um sex vikum til að takast á við nýja afbrigðið.