Nýja afbrigðið barst til Svíþjóðar

Sá smitaði kom til Svíþjóðar frá Bretlandi, en hann fór …
Sá smitaði kom til Svíþjóðar frá Bretlandi, en hann fór í sóttkví við komuna til landsins. AFP

Hið svokallaða nýja afbrigði kórónuveirunnar, sem á upptök sín í Bretlandi, hefur uppgötvast í Suðurmannalandi í Svíþjóð. Hinn smitaði ferðaðist til Svíþjóðar frá Bretlandi í vikunni fyrir jól, en Signar Mäkitalo, sóttvarnalæknir í Suðurmannalandi, óttast að smitið sé ekki eina tilfelli nýja afbrigðisins sem borist hefur til Svíþjóðar. Aftonbladet og Dagens Nyheter greina frá.

Greint var frá smitinu á blaðamannafundi sænskra heilbrigðisyfirvalda, en á fundinum hvatti Sara Byfors, deildarstjóri hjá sænsku lýðheilsustofnuninni, alla sem höfðu ferðast til Svíþjóðar frá Bretlandi til að fara í skimun.

Lokað var á ferðir frá Bretlandi og Danmörku til Svíþjóðar að kvöldi 21. desember til að koma í veg fyrir að afbrigðið bærist til Svíþjóðar.

Ekki er talið líklegt að það hafi náð að dreifa sér víða í Suðurmannalandi, en rannsóknir sýna að afbrigðið geti verið allt að 70% meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar. Sá smitaði er sagður hafa einangrað sig eftir komuna til landsins, og farið í skimun um leið og hann hafi fundið fyrir einkennum.

Nýja afbrigðið hefur einnig komið upp í Frakklandi, Danmörku, Ástralíu, Hollandi og Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert