Nær tíu mánuðum eftir að fyrsta kórónuveirusmitið greindist á Ítalíu er bólusetning hafin. Fyrstu skammtarnir voru sprautaðir í fólk fyrr í dag, þar á meðal voru yfirmenn og framlínufólk á heilbrigðisstofnunum.
Þrír heilbrigðisstarfsmenn á spítalanum í Róm fengu fyrsta skammt af bóluefni Pfizers í morgun. Þetta kom fram í tilkynnningu frá Domenico Arcuri, sem haldið hefur utan um bólusetningu þar í landi.
Claudia Alivernini var ein þeirra sem fengu bólusetningu snemma í morgun. Segir hún að bólusetningin hafi gengið vel og hún sé nú spennt fyrir komandi tímum. „Þetta gekk allt mjög vel og var söguleg stund. Þetta er upphafið að endinum og ég vona að ég hafi einungis verið fyrst allra Ítala til að fá bólusetningu.“
Á Ítalíu hafa greinst um tvær milljónir kórónuveirusmita en alls hafa um 71 þúsund látið lífið af völdum veirunnar. Bóluefni á Ítalíu verður gjaldfrjálst en allir verða hvattir til að láta bólusetja sig þótt slíkt sé ekki skylda.