Hvernig gat vont versnað í Idlib?

Ástandið á stríðshrjáðum svæðum hefur fallið í skuggann af faraldri kórónuveirunnar í ár. Eftir níu ára borgarastyrjöld í Sýrlandi hafa íbúar Idlib-héraðs í norðurhluta landsins uppplifað eitt versta ár frá því átök hófust. Aldrei hafa fleiri þurft að yfirgefa heimili sín í kjölfar loftárása Rússa sem eftirlitsfólk Sameinuðu þjóðanna hefur lýst sem stríðsglæpum.

Þegar fólk á vegum SÞ kannaði aðstæður þar á fyrri hluta ársins kom í ljós hversu umfangsmiklar loftárásirnar höfðu verið þar sem venjulegar fjölskyldur þurftu að leita skjóls í tjöldum og skólum. Á svæðinu, sem er nú síðasta vígi uppreisnarmanna í landinu, er neyð flóttafólks mikil eins og sést í fréttaskýringu New York Times í myndskeiðinu. Borgir og bæir eru óþekkjanleg eftir sprengjuregn og barnafjölskyldur eru á hrakhólum þar sem heimili þeirra hafa verið jöfnuð við jörðu.

Í febrúar var gerð árás á spítala í bænum Maarat Misrin og hinum megin við götuna var skóli sem hýsti fólk á flótta. Barnafjölskyldur sem leituðu þar skjóls urðu fyrir sprengjubrotum og grófust undir húsarústum. Loftárásir rússneskra herþotna á fólk á flótta voru engin tilviljun. Á rúmu ári telst blaðamönnum NYT til að Rússar hafi gert 33 slíkar árásir.

Í myndskeiðinu sjást átakanlegar myndir af björgunarstarfi í kjölfar einnar slíkrar.

mbl.is mun á milli jóla og ný­árs birta skýr­ing­ar af þessu tagi sem New York Times hef­ur gert fyr­ir alla mánuði þessa viðburðaríka árs. Kór­ónu­veir­an er þar fyr­ir­ferðar­mik­il en önn­ur stór frétta­mál á ár­inu eru einnig til skoðunar, þar má nefna dauða Geor­ge Floyds í hönd­um lög­regl­unn­ar í Minn­ea­pol­is og for­seta­kosn­ing­arn­ar í Banda­ríkj­un­um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert