Fjöldi kórónuveirusmita í S-Afríku er nú orðinn ein milljón talsins. Kemur þetta í kjölfar fregna af nýju afbrigði þar í landi sem virðist meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti S-Afríku.
Einungis eru liðnir níu dagar frá því að 900 þúsund smit höfðu greinst í landinu. Þeim hefur þannig fjölgað um 100 þúsund á rétt rúmri viku. Smitin voru í byrjun desember rétt um 800 þúsund.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá Mediclinic International, einum af þremur bestu einkaspítölum landsins, hefur alvarlegum veikindum fjölgað svo um munar. Það hafi jafnframt slæm áhrif á heilbrigðiskerfið, en ljóst er að ef fram heldur sem horfir gætu nauðsynjar orðið af skornum skammti.
„Fjöldi þeirra sem leitað hafa til okkar undanfarið er talsvert meiri en þeir sem hingað komu í fyrstu bylgjunni. Þá starfar gjörgæslan nú þegar eins og þegar mest lætur,“ segir m.a. í tilkynningunni.