Pútín lætur bólusetja sig með Spútnik V

Vladimír Putin, forseti Rússlands.
Vladimír Putin, forseti Rússlands. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, verður bólusettur fyrir kórónuveirunni. Notast verður við rússneska bóluefnið Spútnik V. Þetta kom fram í viðtali við talsmann forsetans, Dimitry Peskov, á rússneska ríkissjónvarpinu fyrr í dag. 

„Hann verður bólusettur, en hann tók sjálfur ákvörðun um það. Hann bíður nú eftir því að pappírsvinna og önnur formlegheit verði kláruð,“ var haft eftir Peskov. Pútín hefur áður sagt að bóluefnið sé öruggt og engin ástæða sé til annars en að láta bólusetja sig. 

Frá og með mánudeginum getur fólk eldra en 60 ára skráð sig í bólusetningu. Borgarstjóri Moskvu, Sergei Sobyanin, greindi frá þessu í dag, en búið er að gefa grænt ljós á notkun bóluefnisins fyrir eldra fólk. 

Sjálfur er Pútín 68 ára gamall og flokkast því til eldra fólks. Forsetinn hefur unnið fjarvinnu undanfarna mánuði auk þess að takmarka ferðalög eins og kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert