Kínversk blaðakona var í morgun dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að streyma fréttum á netinu frá Wuhan við upphaf kórónuveirufaraldursins fyrir rétt tæpu ári.
Dómari sakaði Zhang Zhan um að hafa reynt að efna til illinda með fréttum sínum af útbreiðslu faraldursins í upphafi árs.
Á gamlársdag greindu kínversk yfirvöld frá dularfullum lungnasjúkdómi sem virtist vera að ná útbreiðslu í borginni Wuhan. Síðan hefur rúmlega 81 milljón Covid-19-smita verið staðfest á heimsvísu og af þeim hafa 1,7 milljónir látist.
Fréttum Zhan um veiruna var dreift víða á samfélagsmiðlum í febrúar og náðu þær augum kínverskra yfirvalda sem hafa nú þegar refsað átta uppljóstrurum vegna frétta af kórónuveirufaraldrinum.
Lögfræðingur Zhan, Ren Quanniu, óttast um heilsu skjólstæðings síns en sjálf sagðist Zhan ætla í hungurverkfall í fangelsinu.