500 tonn af áburði ollu sprengingunni í Beirút

Hafnarsvæðið í Beirút eftir sprenginguna miklu í ágúst.
Hafnarsvæðið í Beirút eftir sprenginguna miklu í ágúst. AFP

Niðurstaða rannsóknar bandarísku alríkislögreglunnar FBI á sprengingunni miklu sem varð í Beirút í ágúst er sú að 500 tonn af áburði, sem innihélt ammoníum nítrat, hafi ollið harmleiknum. Þetta segir fráfarandi forsætisráðherra Líbanon, Hassan Diab.

Diab, sem sagði embætti sínu lausu eftir sprenginguna sem varð meira en 200 manns að bana, hafði áður sagt að rúmlega 2.700 tonn af áburði af þessu tagi hefðu verið geymd kæruleysislega í áraraðir í vöruhúsi sem sprakk við höfnina.

En rannsókn FBI hefur leitt í ljós að einungis tæpur fjórðungur áburðarins hefði sprungið, og valdið öllu því tjóni sem varð.

Nú nærri fimm mánuðum eftir sprenginguna hefur lítið komið í ljós um þær aðstæður sem ollu þessum stærstu hamförum sem hafa dunið á Líbanon á friðartímum, en margir kenna áratuga vanrækslu og spillingu ráðamanna um.  

Forsætisráðherrann ákærður

Dómarinn sem fer fyrir rannsókn málsins, Fadi Sawan, kærði Diab forsætisráðherra og nokkra aðra úr ríkisstjórninni í mánuðinum fyrir „vanrækslu og að hafa valdið hundruðum manna lífláti, og þúsundum fleiri áverka.“

Rannsóknin hefur þó verið stöðvuð í bili, þar sem tveir ráðherranna sem ákærðir eru hafa kallað eftir því að Sawan dómari víki sæti í málinu.

Ákæra þessi er sú fyrsta gegn forsætisráðherra í sögu Líbanon. Rannsóknin hefur leitt til handtöku á 25 grunuðum, þeirra á meðal yfirmanni hafnarinnar og tollsins. Enginn stjórnmálamaður hefur verið handtekinn enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert