Ísrael náði þeim magnaða áfanga í gær að hafa sprautað hálfa milljón landsmanna sinna með bólefni gegn COVID-19, rúmlega viku eftir að bólusetningar hófust þar í landi.
„Við höfum unnið að því að koma milljónum bóluefnaskammta til Ísrael og höfum nú, þökk sé heilbrigðisráðuneytinu, sjúkrahúsunum og sjúkrasjóðum […] náð þessum áfanga,“ sagði Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels á viðburði helguðum árangrinum, en hann var bólusettur fyrstur allra landsmanna.
„Ef við höldum uppteknum hætti verðum við fyrsta ríki heims til að sigrast á kórónuveirunni,“ sagði hann enn fremur.
Ísraelar eru langfremstir í bólusetningum landsmanna sinna í heiminum, en þeir hafa nú sprautað 7,44 einstaklinga á hverja 100 íbúa landsins með bóluefninu. Næst á eftir þeim kemur Barein með 3,29 skammta á hverja 100 íbúa og Bretland með 1,18.
Heilbrigðisráðuneyti Ísrael sagði í gær að 21% Ísraela yfir sextugu hefðu nú fengið fyrsta skammt bóluefnisins af tveimur. Ísrael hóf bólusetningar 20. desember og einblíndu fyrst á heilbrigðisstarfsfólk, fólk yfir 60 ára aldri og hááhættuhópa.
Ísraelar eiga von á því að hafa fengið samtals 3,8 milljónir skammta af Pfizer-bóluefninu fyrir morgundaginn, sem nægir til að bólusetja 1,9 milljónir manna þar sem gefa þarf hverjum og einum tvær sprautur af efninu með þriggja vikna millibili.
Frétt The Times of Israel um málið.