„Við erum á haus hérna“

SAR-björgunarþyrla norska flughersins sveimar yfir Ask í Gjerdrum í kvöld …
SAR-björgunarþyrla norska flughersins sveimar yfir Ask í Gjerdrum í kvöld í von um lífsbjörg. Hamfarirnar í dag eru einar þær skelfilegustu síðustu áratugi í Noregi og leita lögregla og björgunarsveitir nú logandi ljósi að tíu íbúum Ask sem ekkert er vitað um. AFP

Í dag hafa augu heimsins beinst að Gjerdrum í Raumaríki, skammt frá norsku höfuðborginni Ósló, og litla samfélaginu í Ask þar sem allt er í orðsins fyllstu á hvolfi eftir jarðfall sem lagði minnst 17 hús í rúst.

„Við erum gjörsamlega á haus hérna, herinn er hérna, við erum með dróna og þyrlur og hér einhvers staðar eru tíu manns sem við vitum ekkert hvar eru og lögregla og björgunarsveitir eru um allt,“ segir Gisle Sveen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ask í Noregi, í samtali við mbl.is í kvöld eftir hamfarir sem vakið hafa heimsathygli, daginn eftir stórfelldar náttúruhamfarir í jarðskjálfta í Króatíu sem mbl.is hefur fjallað um.

„Ég veit ekki hvernig þetta fer, við verðum að finna þetta fólk og við erum ekki að leita að látnu fólki, við erum að leita að fólki sem lifði þetta af,“ segir Sveen vongóður á meðan voldugir spaðar SAR-þyrlu norska flughersins senda frá sér auðheyrðan gný í bakgrunninum.

Tefla ekki í tvísýnu

„Eins þurfum við að fara eftir því sem jarðfræðingarnir segja, sum svæði megum við ekki fara inn á, þau eru ekki örugg og þar reynum við að nota drónana til að átta okkur á aðstæðum, við megum ekki tefla í neina tvísýnu með okkar fólk þótt við óttumst um íbúana hér sem við vitum ekki um,“ segir Sveen og ljóst er að hugur fylgir máli aðgerðastjórans.

Höfuðstöðvar vinnumálastofnunarinnar NAV í Ask þar sem ekkert er vitað …
Höfuðstöðvar vinnumálastofnunarinnar NAV í Ask þar sem ekkert er vitað um afdrif tíu manns eftir hrikalegar hamfarir í þessu litla samfélagi í dag. AFP

Hann segir lögreglu og björgunarsveitir verða að störfum í Ask í alla nótt og fram á nýtt ár, höfuðáherslan sé á að bjarga lífi þess fólks sem kannski liggur einhvers staðar í rústum heimila sinna en gæti einnig verið í jólaheimsóknum úti á landi. Ljóst er þó að þeir sem saknað er eru væntanlega ekki staddir erlendis, þökk sé kórónuveirunni.

Gisle Sveen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ask í Gjerdrum, segir lögregluna …
Gisle Sveen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ask í Gjerdrum, segir lögregluna ekki vera að leita að látnu fólki heldur lifendum og heldur í vonina um að þeir íbúar smábæjarins sem enn er saknað finnist heili á húfi. Ljósmynd/Aðsend

„Við tökum bara eitt skref í einu, náttúran getur gert okkur skráveifu hér í Noregi, hefur gert það áður og mun gera það aftur,“ segir Gisle Sveen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ask í Noregi, í samtali við mbl.is um einar verstu náttúruhamfarir frændþjóðarinnar áratugum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert