„Ég sagði þeim á sínum tíma að allt svæðið þarna gæti hrunið ofan í jörðina,“ segir Steinar Myrabø, vatnsverkfræðingur, eða hydrolog á norsku, í samtali við mbl.is og á við jarðfallið í Ask í Gjerdrum í gær. Norskir fjölmiðlar hafa í dag keppst við að fjalla um varnaðarorð Myrabø árið 2008 varðandi deiliskipulag og staðsetningu íbúðarhúsa í Ask.
„Ég varaði sveitarfélagið við,“ segir Myrabø sem á sínum tíma starfaði fyrir norsku járnbrautirnar og fékkst þá við rannsóknir á vatnsrennsli og burðarþoli jarðvegar í tengslum við lagningu brautarteina. Á þessum tíma var hann búsettur í Gjerdrum. „Mínar rannsóknir á jarðveginum þarna gáfu til kynna að íbúðabyggð á sumum stöðum í Ask væri einfaldlega ekki forsvaranleg, jarðvegurinn bæri einfaldlega ekki heilu húsin,“ segir hann.
„Ég bauð meira að segja ókeypis ráðgjöf vegna þess að ég sá að þarna gæti jarðvegurinn gefið eftir,“ segir Myrabø en kveðst hafa talað fyrir daufum eyrum stjórnenda Gjerdrum. „Sveitarfélagið ákvað hins vegar að aðhafast ekki við að útbúa lausnir á frárennslismálum sínum,“ segir hann, en tillögur sínar lagði hann fram árið 2008 eftir að Tistill-lækurinn í Gjerdrum flæddi yfir bakka sína.
Ræddi Myrabø málið við fjölmiðilinn Eidsvoll Blad á sínum tíma og hafa norskir fjölmiðlar, þar á meðal NRK, birt skjáskot af því viðtali til jarteikna.
„Ég tel að slá þurfi öllum byggingarframkvæmdum á frest þar til þetta vandamál er leyst og almennilegar áætlanir hafa verið unnar,“ sagði Myrabø við Eidsvoll Blad fyrir tólf árum og átti þar við uppbyggingu í miðbænum í Ask.
Verkfræðingurinn skrifaði bæjarverkfræðingi Gjerdrum á sama tíma og bað sveitarfélagið að athuga sinn gang hvað þetta atriði snerti.
„Enginn veit hvað olli jarðfallinu núna, ég tek það alveg skýrt fram,“ segir Myrabø, „í fyllingu tímans verður það allt rannsakað, en ég veit hins vegar að aðvörunum mínum var enginn gaumur gefinn á sínum tíma,“ segir hann alvarlegur í bragði.
Hér skal ekkert fullyrt um hvort hamfarir gærdagsins í Ask tengdust því sem Myrabø varaði við, og setur hann sjálfur sína fyrirvara þar um, en óneitanlega má telja líklegt að hefðu stjórnendur Gjerdrum fyrir tólf árum ekki skellt skollaeyrunum við ítrekuðum aðvörunum Myrabø hefði hugsanlega mátt koma í veg fyrir skelfilegan harmleik.