Leitin í Ask miðar að því að finna fólk á lífi

Roger Pettersen, aðgerðarstjóri norsku lögreglunnar, sagði á blaðamannafundi í morgun …
Roger Pettersen, aðgerðarstjóri norsku lögreglunnar, sagði á blaðamannafundi í morgun að viðbragðsaðilar leita enn á grundvelli þess að finna fólk á lífi. AFP

„Leitaraðgerðir miða að því að finna fólk lifandi,“ sagði Roger Pettersen, aðgerðarstjóri lögreglunnar á vettvangi í bænum Ask í Noregi. Bærinn varð fyrir jarðfalli sem tók fleiri hús og er 10 einstaklingum enn saknað. Dæmi eru um að hús hafi færst allt að 400 metra, að sögn aðgerðarstjórans.

Á blaðamannafundi í morgun sagði Pettersen að sumir íbúar hefðu fengið leyfi til að snúa aftur til heimila sinna, en að víða sé enn litið á að hætta sé á ferð og er ekki vitað hvenær allir íbúar fá að snúa aftur. Ljóst er að 31 fjölskylda séu nú án heimilis.

„Hrundi allt í kringum okkur“

Það urðu þó gleðifréttir í morgun er þyrluáhöfn viðbragðsaðila tókst að bjarga dalmatíu-hundinum Zajka úr rústunumað því er fram kemur í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK. Anna Sandman kveðst mjög glöð að fjölskylduhundurinn er fundinn.

Áður hafði NRK rætt við eigendur Zajku sem sögðu það hafa verið erfitt að hafa skilið hundinn eftir þegar húsið byrjaði að hrynja, en þau höfðu ekki haft annarra kosta völ. „Við reyndum að koma okkur út. Þegar við vorum á leið að útidyrunum hrundi allt í kringum okkur. Við stóðum í miðju jarðfallinu og vorum með leir og brak í kringum okkur. Við komumst aldrei að útidyrahurðinni, hún var ekki lengur til,“ var haft eftir Sandman.

Þyrlur hafa verið á flugi yfir jarðfallssvæðinu allt frá því …
Þyrlur hafa verið á flugi yfir jarðfallssvæðinu allt frá því að atvikið átti sér stað í gærmorgun. AFP

Lögreglan aðstoðar bændur

Rafmagnslínur og vatnslagnir rofnuðu þegar jarðvegurinn hrundi undan 17 húsum í bænum sem er miðja landbúnaðarsveitarfélagsins Gjerdrum og við það urðu tvö stórbýli án rafmagns og vatns. Þá hafa þrjú býli verið í vandræðum með að annast dýr þar sem þau eru að fullu eða að hluta á rýmingarsvæði, en lögreglan aðstoðar nú bændur við að koma fóðri til dýranna að því er fram kemur í umfjöllun Verdens Gang.

Jens Thori Kogstad, formaður bændasamtakanna í Akershus-fylki, segir stórbýlin tvö séu bæði um 300 til 400 metra frá þeim stað er jarðfallið átti sér stað. Annað býlið sé með 25 til 30 mjólkurkýr og hitt með um 1.500 svín og 150 naut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert