Sat á þakinu og kallaði á konu sína og dóttur

Snemma í gærmorgun hrundi jarðvegurinn undan fjölda húsa í Ask …
Snemma í gærmorgun hrundi jarðvegurinn undan fjölda húsa í Ask í Noregi. Tíu er enn saknað. AFP

Það var rétt fyrir klukkan fjögur að nóttu sem Odd Steinar vaknaði við að eiginkonan hristi hann og öskraði að húsið væri að hrynja. Dóttirin var búin að vera lasin og hafði hún ásamt móðurinni sofið í öðru herbergi þessa nótt.

Odd Steinar hélt fyrst að um væri að ræða eld og hljóp fjölskyldan niður á neðri hæð hússins og að útidyrahurðinni. Þegar hann var kominn niður tröppurnar hrundi húsið. „Þá var Ann-Mari og Victoria beint fyrir framan mig,“ segir Odd Steinar í samtali við NRK.

Hann komst ásamt nágrönnum ofaná húsrústirnar. Hann kallaði á konuna og dóttur sína og heldur að hann hafi heyrt svar, þeirra er enn saknað.

Þetta er meðal frásagna íbúa Ask í Noregi þar sem jarðvegurinn hrundi undan fleiri húsum snemma morguns í gær og skildi eftir sig rústir einar.

Odd Steinar kveðst ekki vita hvort Ann-Mari og Victoria hafi komist út áður en húsið hrundi. Hann varð fastur í litlu rými undir húsrústunum en eftir því sem meira hrundi opnaðist leið til að skríða út. „Það var allt í rugli fyrir utan. Það var algjör þögn og dimmt.“

Á nærfötunum

Á þessari stundu var hann enn ekki viss um hvað það var sem hafði gerst og hugsaði að kannski væri þetta jarðskjálfti. Kanturinn upp úr holunni sem myndaðist við jarðfallið var allt of hár til að hægt væri að klifra upp.

„Nágrannarnir stóðu bara á nærfötunum, en náðu að taka með sér nokkrar sængur. Ég spurði hvað gerðist og hann svaraði að hann vissi það ekki. Ég sá ekkert, það var svartamyrkur, en ég skildi eftir smá stund að húsin í kring væru líka farin.“

Jarðvegurinn hrundi svo langt niður að íbúar gátu ekki klifrað …
Jarðvegurinn hrundi svo langt niður að íbúar gátu ekki klifrað upp. AFP

Fjölskyldufaðirinn kveðst hafa séð bláljósin blikka frá bílum viðbragðsaðila, en það var allt of langt niður til þess að þeir kæmust til þeirra. Hann sat því kyrr ásamt nágrönnunum á þaki hússins í um einn og hálfan til tvo tíma þar til þyrla gat sótt þau.

Ekki viss hvað hann heyrði

Hann segist hafa setið á þakinu og kallað eftir konu sinni og dóttur og heldur að hann hafi heyrt þær svara skammt frá sér. Í dag er hann hins vegar ekki viss hvort það voru köll þeirra sem hann heyrði. „Ég hef orðið sífellt meira óviss. Þegar mér var bjargað upp í þyrlu og fluttur á sjúkrahús var ég viss um að ég myndi hitta þær síðar í gærmorgun. Það gerðist ekki og er ég þess vegna ekki viss um að ég hafi raunverulega fengið svar þegar ég kallaði.“

„Ég veit að líkurnar versna því lengur sem líður. En ég hef ekki gefið upp vonina og það sagði lögreglan líka; að ég mætti ekki gefa upp vonina því það er ótrúlegt hvað fólk getur lifað af,“ segir Odd Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert