Efri deild argentínska þingsins samþykkti í dag frumvarp um lögleiðingu þungunarrofs í landinu.
„Öruggt, löglegt og ókeypis þungunarrof eru nú í lögum. Við erum nú betra samfélag, sem hefur aukið rétt kvenna og tryggt almenna heilbrigðisþjónustu,“ skrifaði Alberto Fernandez, forseti Argentínu, á Twitter þegar lögin höfðu verið samþykkt.
Hundruð þúsunda ólöglegra þungunarrofa hafa verið framkvæmd í Argentínu ár hvert og er talið að um 3.000 konur hafi látist vegna þeirra frá því á níunda áratugnum.
Þúsundir komu saman í höfuðborginni Buenos Aires, ýmist til að fagna eða mótmæla lagabreytingunni.
Mannréttindasamtök eru meðal þeirra fyrrnefndu. Jose Miguel Vivanvo, framkvæmdastjóri Human Rights Watch í Ameríku, sagði ákvörðunina sögulega og sagðist vonast til að hún yrði til þess að önnur lönd í álfunni fylgdu í kjölfarið.
Lögleiðingin mætti hins vegar mikilli andstöðu kaþólsku kirkjunnar, sem er áhrifamikil í landinu og var Frans páfi, sem er argentínskur, meðal þeirra sem hafði lýst yfir andstöðu sinni í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.
Jair Bolsonaro, forseti nágrannaríkisins Brasilíu, fordæmdi lögleiðinguna sömuleiðis og lýsti lögunum sem rétti til að drepa börn.