Leit heldur áfram í dag að þeim níu sem enn er saknað eftir jarðfall í bænum Ask í Gjerdrum í Noregi aðfaranótt miðvikudags. Einn fannst látinn í gær og vonast lögregla til að hægt verði að greina frá nafni hans í dag.
Björgunaraðilar munu í dag stækka leitarsvæðið, en vonast var til þess að fleiri myndu finnast á sama svæði og hinn látni.
Sjúkraþyrla og sjúkrabílar voru á vettvangi í gær. Yfirvöld hafa bannað alla hefðbundna flugumferð yfir svæðinu þangað til á mánudaginn á meðan leit stendur yfir úr lofti.
Fleiri íbúar Gjerdum hafa þurft að yfirgefa heimili sín á síðustu dögum, en ekki liggur fyrir hvenær þeir geti snúið aftur.