Bandarískur áfrýjunardómstóll hefur aflétt frestun á aftöku Lisu Montgomery, sem kyrkti þungaða konu, risti hana á kvið og tók úr henni ófætt barnið með eldhúshníf. Montgomery verður að óbreyttu fyrsta konan sem tekin verður af lífi af alríkisyfirvöldum í nærri 70 ár.
Til stóð að taka Montgomery af lífi með banvænni sprautu í alríkisfangelsinu í Terre Haute, Indiana, í síðasta mánuði, en alríkisdómari frestaði aftökunni eftir að lögmenn hennar sýktust af kórónuveirunni.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið ákvað í kjölfarið að aftakan færi fram 12. janúar. BBC greinir frá því að lögmenn Montgomery munu fara þess á leit að niðurstaða áfrýjunardómstólsins verði endurskoðuð.
Síðast var kona tekin af lífi af alríkisyfirvöldum Bandaríkjanna árið 1953, þegar Bonnie Heady var tekin af lífi í gasklefa. Aftökur alríkisyfirvalda höfðu ekki farið fram í 17 ár þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað á síðasta ári að hefja þær að nýju.
Bobbie Jo Stinnett var 23 ára gömul er Montgomery drap hana í desember 2004 en þær þekktust ekki. Yfir eitt þúsund lögmenn hafa biðlað til alríkisins um að þyrma lífi Montgomery, sem er mjög veik á geði eftir hrottalegt ofbeldi í æsku sem og höfuðáverka sem hún hlaut sem barn.