Dómari í London ætlar að dæma á morgun um hvort Julian Assange, stofnandi Wikileaks, verði framseldur frá Bretlandi til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsisdóm fyrir njósnir. Stuðningsmenn Assange segja að verði hann fundinn sekur í Bandaríkjunum yrði það atlaga að fjölmiðlafrelsi.
Assange er þó ekki ákærður fyrir neina glæpi í Bretlandi, heldur er bara verið að rétta um hvort mál hans gefi tilefni til framsals á grundvelli samnings milli Bandaríkjanna og Bretlands sem undirritaður var árið 2003.
Fari svo að breskir dómstólar ákveði að framselja megi Assange fellur það í skaut innanríkisráðherra Bretlands að taka úrslitaákvörðun um framsal hans. Áður en að það gerist er þó talið líklegt að málinu verði áfrýjað til æðra dómstigs í Bretlandi, sama hver niðurstaða þess verður. Svo er einnig talið að Assange reyni að fá máli sínu skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu, tapi hann í Bretlandi.
Ef Assange verður framseldur kemur það svo í hlut Joes Biden, verðandi forseta Bandaríkjanna, að ákveða um framhaldið. Biden kallaði Assange „hátækni-hryðjuverkamann“ árið 2010, þegar hann var varaforseti, en óvíst er hvort Biden hafi snúist hugur síðan þá. Biden getur valið um að náða Assange verði hann fundinn sekur, dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna getur einnig látið ákæruna niður falla, eða haldið málinu til streitu.
Bretar hafa á undanförnum árum hafnað framsalsbeiðnum bandarískra stjórnvalda. Árið 2012 höfnuðu Bretar beiðni Bandaríkjamanna um að fá Gary McKinnon, breskan tölvuþrjót, framseldan, sem ákærður var í Bandaríkjunum fyrir að hafa brotist inn í tölvukerfi þeirra árið 2002. Þá var Lauri Love ekki framseldur árið 2018, en hann átti að hafa brotist inn í vefsíður bandarískra stjórnvalda.
Bandaríkjamenn telja að Assange hafi með meintum brotum sínum hætt lífi bandarískra ríkisborgara með því að birta nöfn heimildamanna bandarískra hersins á svæðum þar sem herinn var við störf. Þá er hann ákærður vegna birtingar á gögnum sem varða meðal annars stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan og ómannúðlega meðferð fanga í Guantanamo-fangelsinu
„Rannsóknarblaðamennska er ekki afsökun fyrir það að brjóta gegn almennum hegningarlögum,“ sagði James Lewis, lögmaður bandarískra stjórnvalda, fyrir breskum dómstólum í fyrra.
Á öðru máli eru fréttaveitur og mannréttindasamtök um allan heim sem segja ákærur á hendur Assange vera atlögu að fjölmiðlafrelsi.
„Framtíð blaðamennsku og fjölmiðlafrelsis er undir,“ er haft eftir Rebeccu Vincent, forstöðumanni Blaðamanna án landamæra, í New York Times.
„Ef bandarískum stjórnvöldum tekst að fá Assange framseldan og sakfella hann í kjölfarið á bandarískri grundu, þá geta þau sakfell hvaða blaðamann eða fréttaveitu sem er fyrir svipaðar sakir,“ á hún að hafa bætt við.