Afdrifarík níska ESB

Glös með bóluefninu frá Biontech og Pfizer við kórónuveirunni.
Glös með bóluefninu frá Biontech og Pfizer við kórónuveirunni. AFP

Með bóluefnum hefði verið hægt að slá á kórónuveirufaraldurinn, sem nú geisar í Evrópu, en Evrópusambandið var of hikandi, segir í grein í þýska vikuritinu Der Spiegel. Í raun hefði verið hagstæðara að gjalda fullu verði en að búa nokkrum mánuðum lengur við höft.

Stefan Kaiser, fréttastjóri í viðskiptafréttum hjá vefútgáfu Der Spiegel, segir í grein að stundum geti komið sér vel í pólitík að spila póker og hika fram á síðustu mínútu. Það hafi gefist vel í samningaviðræðum um fjárlög ESB við Pólverja og Ungverja og sömuleiðis um Brexit við ríkisstjórn Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Evrópusambandið hefði hins vegar betur látið pókerinn eiga sig þegar kom að bóluefni við kórónuveirunni.

Samningsglöp munu kosta mannslíf og peninga

„Í sumar þegar smittölurnar voru lágar miðað við nú og panta þurfti nógu mikið af bóluefni við Covid-19 til að vera tilbúin þegar faraldurinn versnaði á ný tóku aðildarríkin 27 reyndar þá skynsamlegu ákvörðun að panta sameiginlega fyrir alla í stað þess að senda hvert ríki eitt í baráttuna,“ skrifar hann. „Það sem eftir það gerðist var hins vegar haparlegt: Í samningunum við bóluefnaframleiðendurna samdi ESB af sér. Þau mistök munu nú í vetur þegar faraldurinn hefur náð hámarki ekki bara kosta mörg mannslíf heldur einnig mjög mikið af peningum. Og það mun gerast þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi í raun með sínum póker eiginlega ætlað að spara peninga – þannig verður maður í það minnsta að túlka það sem hingað til hefur komið fram.“

Hjúkrunarfræðingur bólusetur ísraelska konu á sjúkrahúsi í Tel Aviv í …
Hjúkrunarfræðingur bólusetur ísraelska konu á sjúkrahúsi í Tel Aviv í Ísrael. Ísraelar voru fljótir að tryggja sér stóran skammt af bóluefninu frá Biontech. AFP

Kaiser rekur að ESB hafi síðan í sumar pantað tvo milljarða skammta af bóluefni hjá sex framleiðendum. Það væri ríflegt, jafnvel þótt hver einasti borgari í Evrópusambandinu fengi tvo skammta eins og gert sé ráð fyrir með flest bóluefnin. Bóluefnin séu hins vegar langt frá því að vera öll komin á það stig að hægt sé að veita leyfi fyrir þeim. Þar megi nefna bóluefnið frá franska lyfjarisanum Sanofi. ESB hafi pantað 300 milljónir skammta frá þeim, en vegna ýmissa tafa verði bóluefnið í fyrsta lagi tilbúið í lok þessa árs. „Það er allt of seint til að hjálpa í þeirri dramatísku stöðu sem uppi er í ESB nú þegar þúsundir manna deyja á dag,“ skrifar hann.

Þóttu vænlegustu bóluefnin of dýr?

Í ofanálag virðist Evrópusambandið hafa verið sérlega hikandi í samningum um þau tvö bóluefni, sem nú eru komin í umferð. Leyfi var gefið til að nota bóluefnið frá þýska fyrirtækinu Biontech og bandaríska lyfjarisanum Pfizer 12. desember í ESB og búist er við því að lyfjaeftirlit ESB leyfi bóluefnið frá bandaríska fyrirtækinu Moderna á næstu dögum.

„Evrópusambandið var mjög seint á sér að panta bæði þessi bóluefni – það var ekki fyrr en í nóvember þegar búið var að semja við stóra samninga við lyfjafyrirtækin Sanofi, Johnson & Johnson og AstraZeneca, að skrifað var undir samninga við Biontech/Pfizer og Moderna,“ skrifar Kaiser. „Í þokkabót var magnið lítið: samtals 300 milljónir skammta frá Biontech og 160 milljónir skammta frá Moderna. Fyrir allt Evrópusambandið. Til samanburðar höfðu Bandaríkin með um 330 milljónir íbúa þegar í júlí tryggt sér 600 milljón skammta frá Biontech og 500 milljón skammta frá Moderna. Enda höfðu bæði fyrirtækin snemma lagt fram niðurstöður úr rannsóknum sem lofuðu góðu.“

Niðurstaða Kaisers er að svo virðist sem þeir stjórnmálamenn í Evrópu, sem hlut áttu á málum, hafi í sumar vanmetið hvað faraldurinn myndi blossa upp af miklum krafti í haust og vetur og hversu brýnt yrði þá að eiga bóluefni. Þeir hafi því verið nískir á fjárútlát og ákveðið að kaupa frekar minna af dýru bóluefnunum.

Verðlistinn lak

Vitað er að mikill munur er á verði á bóluefnum þótt opinberar tölur liggi ekki fyrir. Það kom í ljóst þegar Eva De Bleeker, ráðherra neytendamála í Belgíu, birti óvart verðlista á Twitter rétt fyrir jól. Þar kom fram að skammturinn frá Moderna væri dýrastur, kostaði 18 dollara (2.290 krónur), bóluefnið frá Biontech 12 evrur skammturinn (1.873 krónur), Cureveac um 10 evrur (1.560 krónur), Sanofi 7,56 evrur (1.180 krónur), Johnson & Johnson 8,5 dollara (1.080 krónur)  og AstraZeneca ræki lestina með 1,78 evrur fyrir skammtinn (278 krónur). Færslan var fjarlægð, en áður en það tókst var listinn kominn í fréttir.

Kaiser segir að verðið á bóluefninu frá AstraZeneca hafi ráðið því að ESB keypti strax í sumar 400 milljónir skammta á spottprís. Enn sé hins vegar ekki búið að leyfa ódýra bóluefnið og virkni þess sé talsvert minni en virkni dýrari efnanna frá Biontech og Moderna.

„ESB hikaði því ekki bara of lengi, heldur sparaði líka á vitlausum enda. Óttinn við að hafa pantað milljónir skammta af óþörfu bóluefni hafi ráðið því að minna var pantað, skrifar Kaiser og vitnar í vörn Stellu Kyrirakides, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB: „Við vorum sammála um það hjá ESB að leggja ekki allt undir á eina hendi.“ Kaiser telur að réttara hefði verið að leggja eitthvað undir á öll spilin í bunkanum, eða að minnsta kosti flest þeirra.  

Kostnaðurinn hlægilegur miðað við tjónið

„Kostnaðurinn af því hefði verið hlægilegur miðað við það efnahagslega tjón, sem kórónukreppan veldur,“ skrifar hann. „Ef við gefum okkur mikla útgjaldagleði og gerum ráð fyrir að ESB hefði pantað 900 milljón skammta hjá Biontech, Moderna og AstraZeneca – sem sagt nóg til að bólusetja hvern borgara sambandsins tvisvar með hverju bóluefni hefði það samkvæmt verðlista belgíska ráðherrans kostað samtals um 26 milljarða evra – fyrir allt Evrópusambandið. Til samanburðar eru útgjöld þýska ríkisins í aðstoð við fyrirtæki, sem hafa neyðst til að loka í Þýskalandi, rúmlega 30 milljarðar evra bara í nóvember og desember. Samkvæmt mat Rannsóknarstofnunar um vinnumarkaðs- og atvinnumál (IAB) tapar þýska hagkerfið 3,5 milljörðum evra í hverri viku sem harðar aðgerðir eru í gildi.“

Allar samkomur bannaðar, stendur á skilti í Berlín á síðasta …
Allar samkomur bannaðar, stendur á skilti í Berlín á síðasta degi liðins árs. Í Þýskalandi hafa verið harðar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. 30. desember fór fjöldi látinna af völdum veirunnar í fyrsta skipti yfir þúsund manns. AFP

Kaiser segir að þeir sem verji bóluefnapólitík ESB bendi á að það skipti ekki máli hversu mikið hefði verið pantað, framleiðendurnir geti ekki framleitt meira en þeir geri nú. Það sé hins vegar aðeins hálfur sannleikurinn. Vissulega séu flöskuhálsar í framleiðslunni. Lyfjafyrirtækin hefðu hins vegar getað skipulagt starfsemi sína með öðrum hætti hefðu pantanirnar legið fyrir í sumar og haft hvata til að bæta enn í framleiðslugetuna.

Þess utan skipti máli hvar menn hafi verið í röðinni að panta. Þeir sem hafi pantað fyrst fái bóluefnin fyrr í hendur. Bandaríkin séu ekki bara dæmi um það heldur einnig Ísrael. Í Ísrael búa níu milljónir manna. Ísraelar eiga von á að vera búnir að fá fimm milljón skammta af bóluefninu frá Biontech fyrir lok janúar. Í fréttum hefur komið fram að þeir hafi borgað hærra verð fyrir skammtinn.

„Þýskaland og ESB eiga nú lítils annars kost en að vona: Að Biontech og Pfizer takist þrátt fyrir allt að auka framleiðslugetuna meira en gert var ráð fyrir þannig að eitthvað meira berist fyrr af bóluefni, en fyrst og fremst að hagstæða bóluefnið frá AstraZeneca verði brátt leyft og virki kannski nógu vel til að stöðva faraldurinn,“ skrifar Kaiser að lokum.

„Fyrir þriðja stærsta efnahagsveldi heims er það frekar aumt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert