Íhuga að minnka skammtana

AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum skoða nú möguleikann á að helminga skammta bóluefnis Moderna við Covid-19 til þess að flýta bólusetningu. Þetta kemur fram á vef Reuters-fréttastofunnar.

Reuters hefur þetta eftir embættismanninum Moncef Saloui, sem stýrir Warp Speed, aðgerðaáætlun stjórnvalda varðandi bólusetningar. 

Slaoui segir í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina að viðræður séu hafnar við Moderna og FDA, matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, um hugmyndina. Líkt og bóluefni Pfizer þarf tvo skammta af Moderna-bóluefninu. Slaoui segir að til skoðunar sé að helminga þessa skammta fyrir aldurshópinn 18-55 ára. Með því væri hægt að tvöfalda fjölda þeirra sem fengju bólusetningu sem fyrst í þessum aldurshópi. 

Áætlanir bandarískra yfirvalda um að bólusetja 20 milljónir landsmanna fyrir lok árs 2020 náðust ekki en bólusetningar hófust þar í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert