Byltingarverðir Írans hafa stöðvað för flutningaskips sem siglir undir fána Suður-Kóreu í Persaflóa. Greint er frá þessu í írönskum fjölmiðlum í dag. Ástæðan fyrir kyrrsetningu er mengunarhætta sem stafar af skipinu.
Samkvæmt frétt írönsku ríkisfréttastofunni Fars var flutningaskipinu gert að sigla til hafnar í Íran vegna olíumengunar og umhverfissjónarmiða.
Breski fjölmiðillinn Guardian segir að um sé að ræða flutningaskipið MT Hankuk Chemi. Upplýsingar úr gervihnöttum sýni skipið fyrir utan höfnina í Bandar Abbas án þess að nokkrar skýringar fylgi með um veru þess þar. Skipið var á leið frá Sádi-Arabíu til Fujairah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Írönsk yfirvöld hafa greint frá því að ferlið við auðgun úrans þannig að það nái 20% hreinleika sé hafin við Fordow (Shahid Alimohammadi) kjarnorkuverksmiðjuna en aðstaðan þar er neðanjarðar. Þetta er alvarlegt brot á alþjóðlegu samkomulagi sem Íran gerði árið 2015. Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr samkomulaginu árið 2018 og árið 2019 hófu Íranar að auðga úr að nýju.
Mohsen Fakhrizadeh yfirmaður rannsóknar- og þróunarstofnunar íranska varnarmálaráðuneytisins og sem slíkur einn helsti kjarnorkuvísindamaður Írana, var drepinn í lok nóvember og saka írönsk stjórnvöld Ísraela um að hafa staðið á bak við tilræðið.
Fakhrizadeh er sagður hafa farið fyrir rannsóknum þess efnis að smíða kjarnorkuvopn í Íran en því hafa yfirvöld í Teheran þráfaldlega neitað. Hann er almennt talinn vera „faðir“ kjarnorkusprengjuáætlunar Írana. Hann var eðlisfræðiprófessor við Imam Hussein-háskólann í Teheran.