Útgöngubann í Bretlandi

Boris Johnson ávarpar þjóð sína.
Boris Johnson ávarpar þjóð sína. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tilkynnti nú í kvöld að útgöngubann verði sett á í landinu. 

Johnson ávarpaði þjóð sína í kvöld og sagði í upphafi ávarpsins að aðgerðir vegna upphaflegu afbrigði veirunnar hefði borið árangur. Rótækari aðgerðir þurfi þó til að hefta útbreiðslu nýs afbrigði veirunnar, sem hefur verið kennt við Bretland. 

Johnson sagði að nýja afbrigði veirunnar sé á bilinu 50 til 70% meira smitandi. Þar að auki sé álag á sjúkrahús meira en nokkru sinni fyrr í faraldrinum. 

Það sé því ljóst „að gera þurfi meira“ til að ná tökum á faraldrinum svo hægt sé að halda bólusetningu fyrir veirunni gangandi. Annað hafi ekki verið í stöðunni en að setja á útgöngubann að sögn Johnson. Bretar munu því þurfa að halda sig heima með fáeinum undantekningum, svo sem til að versla inn nauðsynjar, sækja sér læknisaðstoð eða flýja heimilisofbeldi. 

Skólastarf fer fram á netinu frá og með morgundeginum, nema fyrir börn í viðkvæmri stöðu. 

Johnson gaf engan tímaramma fyrir útgöngubannið, en sagði að svo lengi sem Bretar fylgi reglum og fari varlega standi vonir til þess að reglur verði rýmkaðar sem fyrst. 

Umfjöllun BBC.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert