Fyrrverandi stjórnarformaður stærsta eignastýringarfyrirtækis í eigu kínverska ríkisins var dæmdur til dauða í dag fyrir að hafa þegið 260 milljónir bandaríkjadala í mútur, fyrir spillingu og tvíkvæni.
Lai Xiaomin, sem áður var félagi í Kommúnistaflokki Kína, játaði brot sín í sjónvarpsútsendingu fyrir ári. Meðan á útsendingu stóð voru birtar myndir úr íbúð Lai í Peking þar sem mátti sjá klefa og peningaskápa yfirfulla af peningaseðlum.
Fram kom í máli dómara í Tianjin í dag að Lai hafi misnotað stöðu sína til þess að þiggja gríðarlega háar fjárhæðir í mútur. Lai var áður stjórnarformaður China Huarong Asset Management Co, sem er skráð í kauphöllinni í Hong Kong. Hann var einnig fundinn sekur um tvíkvæni þar sem hann bjó með annarri konu en eiginkonunni líkt og þau væru í hjónabandi og átti börn með henni.
Rannsóknin á Lai hófst í apríl 2018 en hann var einnig dæmdur fyrir að hafa dregið sér fé úr opinberum sjóðum á árunum 2009 til 2018.
Lai sagði þegar hann játaði brot sín í sjónvarpi að hann hefði ekki eytt krónu af fjárhæðinni. Sýndar voru myndir af lúxusbifreiðum og gullstöngum sem Lai hafði þegið í mútur í þættinum. Niðurstaða dómsins í dag var sú að hald yrði lagt á allar persónulegar eigur Lai og hann sviptur öllum réttindum.